Fótbolti

Gríska undrið segir Sádunum að kaupa sig því hann líti út eins og Mbappé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eru þeir líkir?
Eru þeir líkir? vísir/getty

Körfuboltamaðurinn Giannis Antetokounmpo hvatti sádi-arabíska félagið Al-Hilal til að kaupa sig þar sem hann líti út eins og fótboltamaðurinn Kylian Mbappé.

Al-Hilal bauð Paris Saint-Germain 259 milljónir punda í Mbappé sem vill fara frá frönsku meisturunum. Ef Mbappé færi til Sádi-Arabíu yrði hann dýrasti leikmaður fótboltasögunnar.

Mbappé virðist þó sjálfur ekki hafa mikinn áhuga á að fara til Al-Hilal og Antetokounmpo gerði sér mat úr því á samfélagsmiðlum.

„Al-Hilal þið getið fengið mig. Ég lít út eins og Kylian Mbappé,“ skrifaði Antetokounmpo í færslu sinni.

Mbappé hafði greinilega gaman að þessu uppátæki Antetokounmpos og endurbirti færslu hans með haug af tjáknum.

Samkvæmt frétt Relevo hefur Mbappé engan áhuga á að spila í Sádi-Arabíu, öfugt við margar aðrar stjörnur sem hafa flykkst þangað á undanförnum vikum og mánuðum.

Samningur Mbappés við PSG rennur út næsta sumar og hann vill klára hann og fara svo til Real Madrid. PSG vill þó eðlilega ekki missa sína skærustu stjörnu frítt og reynir því að selja Mbappé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×