Innlent

Eldur kviknaði í mót­töku­­stöð Terra í nótt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út vegna eldsins sem kviknaði í móttökustöð Terra á Berghellu 1 í Hafnarfirði.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út vegna eldsins sem kviknaði í móttökustöð Terra á Berghellu 1 í Hafnarfirði. Aðsent

Eldur kviknaði í móttökustöð Terra á Völlunum í Hafnarfirði í nótt og var allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu kallað út. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins og að koma í veg fyrir að hann breiddist til samtengdra bygginga.

„Við sendum allar stöðvar á vettvang klukkan fjögur í nótt. Það var mikill eldur í móttökustöð hjá Terra. Það gekk bara vel að ráða niðurlögum eldsins og flestar stöðvar eru að pakka saman núna,“ sagði Loftur Þór Einarsson, innivarðstjóri, í viðtali við Vísi rétt fyrir hálf sjö.

Allt tiltækt lið var kallað út vegna eldsins, fjórir dælubílar og tveir körfubílar. „Það verður ein stöð þarna eftir á vakt og það er byrjað að rífa húsið,“ sagði Loftur.

Um var að ræða stórt stálgrindarhús á Berghellu 1 þar sem Terra er með efnamóttöku. Það var því mikið af eldsmat en sem betur fer engin hættuleg efni að sögn Lofts. Ekki er vitað hver eldsupptök voru og jafnframt var enginn á staðnum þegar eldurinn kviknaði.

Loftur segir að eldurinn hafi verið staðbundinn í húsinu sem var þó tengt við önnur hús. Blessunarlega hafi tekist að bjarga þeim. Næsta skref sé að rífa innan úr húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×