Erlent

Hyggjast rann­saka fanga­búðir nas­ista á breskri grundu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Alderney eyjan hefur yfir að búa gríðarlegri náttúrufegurð.
Alderney eyjan hefur yfir að búa gríðarlegri náttúrufegurð. Vísir/Getty

Bresk stjórn­völd hyggjast í fyrsta sinn rann­saka til hlýtar einu fanga­búðir nas­ista sem vitað er að voru reistar á breskri grundu, á eyjunni Ald­er­n­ey í Erma­sundi. Er það gert eftir að ný sönnunar­gögn fundust sem varpað hafa ljósi á grimmdar­verk nas­ista á eyjunni.

Breska blaðið Guar­dian greinir frá en breskar eyjar í Erma­sundi var eini hluti Bret­lands sem nas­istum tókst að her­nema í síðari heims­styrj­öld. Í um­fjöllun miðilsins segir að tala þeirra sem létust í búðunum á eyjunni hafi verið á huldu hingað til.

Allir í­búar eyjunnar voru fluttir á brott af breskum stjórn­völdum árið 1940 þegar þeim varð ljóst að ekki yrði hægt að verja hana frá nas­istum eftir að þeir lögðu undir sig Frakk­land. Þýsk stjórn­völd hafi því breytt allri eynni í fangelsi og byggt þar tvær fanga­búðir.

Þrælað út til dauða

Meiri­hluti fanganna voru Rússar og Úkraínu­menn en í um­fjöllun Guar­dian segir að vitað sé að tölu­verður fjöldi gyðinga, norður-Afríku­búa og spænskir lýð­veldis­sinnar hafi einnig verið fluttur til Ald­er­n­ey. Nas­istar hafi farið grimmi­lega með fanga og þrælað þeim út í dauða.

Aðrir fangar voru pyntaðir, skotnir, eða á þeim gerðar til­raunir og þeir sem ekki gátu unnið voru sendir í út­rýmingar­búðir á megin­landinu. Segir breska blaðið að tala þeirra sem hafi látist á eyjunni hafi löngum verið um­deildur og opin­ber­lega verið sagt að á bilinu 700 til 1000 manns hafi látist í búðunum.

„Ég væri mjög hissa ef tala látinna á Ald­er­n­ey og þeirra sem fluttir voru þaðan í út­rýmingar­búðir myndi ekki hlaupa á þúsundum,“ hefur Guar­dian eftir Ant­hony Glees, prófessor í öryggis­fræðum og sér­fræðingi í sögu stríðs­glæpa. Opin­ber gögn segi að einungis átta gyðingar hafi dáið á eyjunni.

Fræða­fólk telur hins vegar ljóst að þær tölur geti ekki verið réttar. Hyggjast bresk stjórn­völd kanna frá­sagnir um að allt að þúsund gyðingar hafi látist á eyjunni hið minnsta og verið grafnir þar í ó­merktum fjölda­gröfum af nas­istum.

Sendur heim til Þýskalands

Er full­yrt í um­fjöllun breska miðilsins að allt of margar spurningar liggi enn í loftinu um þau ó­dæði sem unnin hafi verið á eyjunni. Þá hefur nýrri tækni verið beitt af forn­leifa­fræðingum til þess að hafa uppi á fjölda­gröfum á eyjunni en í hið minnsta tvær hafa fundist.

Áður hafa bresk stjórn­völd viður­kennt, árið 1983, að Carl Hoff­man, yfir­maður nas­ista í fanga­búðunum á Ald­er­n­ey, hafi ekki verið látinn svara til saka vegna stöðu sinnar í búðunum. 

Rann­sókn blaða­mannsins Solomon Steckoll leiddi það í ljós en áður höfðu bresk stjórn­völd full­yrt að Carl hefði verið af­hentur sovéskum stjórn­völdum og látist í Kænu­garði. Hið rétta er að Carl var leyft að ferðast aftur til síns heima og lést í eigin rúmi í Vestur-Þýska­landi árið 1974.

Um­fjöllun Guar­dian um málið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×