Fótbolti

Heimir skrópaði í við­töl eftir tapið í Vestur­bænum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heimir á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Pawel

Heimir Guðjónsson þjálfari FH mætti ekki í viðtöl við fjölmiðla eftir tap hans manna gegn KR í kvöld. Sigurmark KR kom á lokamínútum leiksins.

KR og FH mættust á heimavelli KR-inga í Frostaskjóli í kvöld. Fyrir leikinn var ljóst að sigurvegarinn myndi sitja í 4. sæti Bestu deildarinnar og því um mikilvægan leik að ræða.

FH fór illa að ráði sínu í síðari hálfleik í kvöld. Liðið fékk vítaspyrnu þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en Simon Kjellevold varði spyrnu Úlfars Ágústs Björnssonar. Á lokamínútu leiksins skoraði Luke Rae síðan sigurmark KR sem fögnuðu ákaft í leikslok.

Þegar blaðamaður Vísis í Vesturbænum, Andri Már Eggertsson, var að ljúka viðtali sínu við Kjartan Henry Finnbogason leikmann Hafnarfjarðarliðsins sagðist Kjartan Henry halda að þjálfari hans væri farinn. 

Við frekari eftirgrennslan fékk Andri Már staðfest að Heimir væri farinn án þess að hafa gefið kost á viðtali en að Sigurvin Ólafsson aðstoðarþjálfari gæti mætt í viðtal væri þess óskað.

FH situr í 5. sæti Bestu deildarinnar eftir tapið í kvöld og er stigi á eftir KR í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×