Körfubolti

Hrákar „til háborinnar skammar“: Mun beita sér fyrir hertum viðurlögum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hannes S. Jónsson er í stjórn FIBA Europe og mun beita sér fyrir breytingum.
Hannes S. Jónsson er í stjórn FIBA Europe og mun beita sér fyrir breytingum.

Þjálfarar U20 ára landsliðs Svartfjallalands hræktu í andlit aðstoðarþjálfara Íslands eftir leik liðanna á HM U20 um helgina. Framkvæmdastjóra KKÍ þykir miður að fastar hafi ekki verið tekið á hegðun þjálfaranna sem smáni íþróttina.

Upp úr sauð eftir sigur Íslands á Svartfjallalandi um helgina. Þjálfarateymi Svartfjallalands missti stjórn og hræktu aðilar úr því á Dino Stipcic, aðstoðarþjálfara Íslands, og það oftar en einu sinni.

„Þetta er algjörlega galið hvernig Svartfellingar og aðallega þjálfarateymið höguðu sér. Algjörlega óíþróttamannslegt og Svartfellingum og þjálfurunum til háborinnar skammar,“ segir Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, um málið.

Mikil óvirðing

Körfuknattleikssamband Evrópu, FIBA Europe, hefur sætt gagnrýni fyrir viðbrögð sín í málinu. Þjálfarar Svartfellinga sluppu alfarið við bann og hlaut körfuknattleikssamband landsins aðeins fjársekt. Þá var gerð tilraun til að fjarlægja upptöku leiksins af YouTube-rás mótsins og um tíma var aðeins hægt að finna hana með krókaleiðum.

„Númer eitt er þetta óvirðing við þjálfarann okkar, það er verið að sína landinu og liðinu okkar mikla óvirðingu og bara körfuknattleiksíþróttinni óvirðingu. Það er í raun galið að þetta séu einungis fjársektir. Maður hefði viljað sjá einhverskonar leikbönn á þá Svartfellinga í þessu móti sem að var að fara fram. Því miður er þetta of algengt á vegum FIBA að beita aðeins fjársektum í stað annars. Númer eitt, tvö og þrjú á svona lagað ekki að sjást og ég hélt maður myndi ekki upplifa svona frá faglegu fólki í íþróttinni,“ segir Hannes.

Mun ræða málið við framkvæmdaráð og stjórn sambandsins

Hannes er í stjórn FIBA Europe og var spurður hvort hann hyggðist beita sér fyrir breyttum starfsháttum hvað refsingar fyrir slíka hegðun varðar.

„Ég mun náttúrulega ekki beita mér í þessu máli per se [máli Íslands og Svartfjallalands], það væri mjög ófaglegt og þá færum við gegn lýðræði og gagnsæi [FIBA]. Það væri mjög ófaglegt. En ég mun taka mál upp á næsta framkvæmdaráðsfundi og stjórnarfundi í kjölfarið hjá okkur innan [FIBA]. Hvernig við getum breytt þessu yfirhöfuð,“

„Ef svonalagað kemur upp í framtíðinni myndi maður vilja sjá harðari refsingu bæði gagnvart þjálfurunum og viðkomandi landi. Ég mun taka þetta upp áfram, og algjörlega óháð Íslandi, finnst mér þetta ekki eiga heima í íþróttinni okkar,“ segir Hannes.

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×