Eins og er, búa Þjóðverjar ekki yfir einni virkri herdeild, samkvæmt stuðlum NATO, sem er tilbúin til átaka. Um er að ræða herdeildir, sem á ensku kallast Division, og eru skipaðar um og yfir tuttugu þúsund hermönnum.
Samkvæmt Reuters vilja Þjóðverjar byggja upp aðra herdeild fyrir árið 2027.
Í sameiningu við Hollendinga ætla Þjóðverjar þó fyrst að mynda nokkur vélbúin stórfylki en slíkar hersveitir eru skipaðar allt að fimm þúsund mönnum. Margar þjóðir Evrópu eiga nú í hernaðaruppbyggingu og nútímavæðingu sem hófst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Olaf Scholz, kanslari, tilkynnti skömmu eftir innrásina að til stæði að fara í mikla hernaðaruppbyggingu í Þýskalandi.
Yfirvöld Í Bandaríkjunum hafa lengi gagnrýnt ríki Evrópu fyrir að leggja ekki nægilega mikið fé til varnarmála en viðmið NATO segja að aðildarríki eigi að verja minnst tveimur prósentum landsframleiðslu til varnarmála. Ráðamenn í Evrópu hafa margir komist að því að vopnabúr ríkja þeirra hafa verið vanhirt og framleiðslugeta þeirra á hergögnum og skotfærum er ekki nægilega góð fyrir svokölluð jafningjaátök, eða það þegar ríki af sambærilegri stærð berjast sín á milli.
Þjóðverjar stefna á að vera komnir í prósentin tvö strax á næsta ári.
Alfons Mais, yfirmaður þýska hersins segir í viðtali við Reuters að erfitt verði að útvega þessum nýju hersveitum skotfæri. Það sé að hluta til vegna þess að Vesturlönd hafa sent gífurlegt magn skotfæra til Úkraínu og framleiðsla þeirra heldur ekki í við það hve hratt þeim er skotið í átökunum í Úkraínu.
Búið er að ganga mjög á skotfærageymslur Evrópu til að senda skotfæri, og þá sérstaklega sprengikúlur fyrir stórskotalið, til Úkraínu. Forsvarsmenn þýska vopnafyrirtækisins Rheinmetall eru meðal þeirra sem hafa reynt að auka framleiðslugetu og vinna þeir meðal annars að því að byggja nýja skotfæraverksmiðju.
Sjá einnig: Evrópa í basli með skotfærabirgðir og framleiðslu
Eins og Mais viðurkennir í áðurnefndu viðtali hefur framleiðslugeta Evrópu á skotfærum dregist verulega saman.
„Þú kaupir skotfæri ekki út í byggingavöruverslun. Framleiðslugeta hefur dregist mjög saman,“ sagði Mais. Hann sagði öll ríki NATO eiga í þessum vandræðum en að svo stöddu væri mikilvægara að standa við bakið á Úkraínumönnum en að byggja upp nýjar hersveitir.