Handbolti

Dóttir þjálfarans með ellefu mörk í sigri ís­lensku stelpnanna á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lilja Ágústsdóttir var mjög öflug í sigrinum í dag.
Lilja Ágústsdóttir var mjög öflug í sigrinum í dag. EHF/Marius Ionescu

Stelpurnar í nítján ára landsliði kvenna í handbolta eru á sigurbrautinni á Evrópumótinu í Rúmeníu því þær fylgdu eftir sigri á Króatíu með því að vinna Norður Makedóníu í dag.

Íslenska liðið vann sex marka sigur, 35-29, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 20-15.

Með sigrinum tryggðu íslensku stelpurnar sér sæti í leiknum um þrettánda sæti á móti annað hvort Serbíu eða Króatíu. Í þeim leik er mikið undir því þrettánda sætið gefur farseðil á heimsmeistaramótið sumrið 2024.

Íslensku stelpurnar náðu mest níu marka forskoti í seinni hálfleiknum en Norður-Makedónar náðu að laga aðeins stöðuna undir lokin.

Dóttir landsliðsþjálfarans var langatkvæðamest í íslenska liðinu en Lilja Ágústsdóttir skoraði ellefu mörk úr sextán skotum en fimm marka hennar komu af vítalínunni. Ágúst Þór Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson þjálfa íslenska liðið.

Elín Klara Þorkelsdóttir var einnig mjög öflug með sjö mörk úr níu skotum og Inga Dís Jóhannsdóttir skoraði sex mörk úr átta skotum. Þá var Embla Steindórsdóttir með fjögur mörk úr sex skotum.  Ethel Gyða Bjarnasen varði níu skot í markinu.

Elín Klara var einnig skráð með þrjár stoðsendingar en íslenska liðið fékk ekki margar stoðsendingar skráðar á sig eða bara ellefu í öllum leiknum.

Íslensku stelpurnar töpuðu fjórum fyrstu leikjum sínum á mótinu en brotnuðu ekki við það heldur hafa nú unnið tvo flotta sigra í röð með samtals fimmtán marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×