Þetta kemur fram í tilkynningu frá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Þar kemur fram að heildarrúmmál hraunsins er nú 3,4 milljón rúmmetrar og flatarmálið um 0.4 ferkílómetrar.
Hraunið rennur til suðurs, meðfram Litla-Hrút og út á hraunið austan hans. Hraunið sem kom upp í upphafi goss við Litla Hrút er af svipaðri gerð og hraunið sem kom upp í lok gossins 2021 og í ágúst í fyrra.

Efnasamsetning gassins er jafnframt sambærileg og í upphaf goss 2022, með tiltölulega háan styrk koltvíoxíðs (CO2) sem líklega hafði safnast saman í aðdraganda gossins 10. júlí.
Þessar niðurstöður benda því til tengsla við bráðina sem einkenndi mest allt gosið 2021, en einnig bráðina sem gaus 2022. Hver tengsl þessara bráða eru nákvæmlega, kallar á ítarlegri rannsóknir. Athyglisvert er að ekkert bólar á bráð sambærilegri þeirri og kom upp í upphafsfasa þessara atburða í mars 2021.
