„Maður er kominn á tíma og orðinn gamall karl,“ segir Skúli léttur. Hann segir síðustu átta ár hafa verið afar góð og að þau hafi staðið vaktina allan tímann sjálf.
Skúli og Sigrún voru til með teikningar að stækkun kaffihússins þegar þau ákváðu frekar að loka. Þau segja miklar framkvæmdir við húsnæðið hafa flýtt ákvörðuninni en ákvörðunina þó tekna í samráði við bæinn.
„Þegar maður er kominn á eftirlaunaaldur er það dálítið stór biti að vera að fara að byggja stórt veitingahús og starta upp á nýtt þar,“ segir hann og að þegar þau hófu reksturinn hafi þau tekið við húsinu en aðeins gert það upp. Það hafi tekið um þrjá mánuði.
Spurður hvernig honum líður segir Skúli að honum líði vel því hann sé búinn að taka ákvörðun um næsta skref.
„En það er mikill söknuður af öllum þessum góðu viðskiptavinum sem við höfum haft og þeirri hlýju sem við höfum fundið í gegnum tíðina, og ekki síst núna, þegar við erum að hætta,“ en yfir þau Sigrún og Skúla hefur rignt kveðjum síðustu daga á samfélagsmiðlum eftir að þau tilkynntu að þau ætluðu að loka.
![](https://www.visir.is/i/3B36DAEB65AD0FA347C484D13369B8AF3B57B3F1D804D6AC0D9AEFEA845921EC_713x0.jpg)
Fjölmargir hafa lýst yfir mikilli sorg á samfélagsmiðlum vegna lokunarinnar og gestir kaffihússins í dag voru á einu máli um að þau myndu sakna þess að geta komið og fengið pizzu og snúða.
Það hefur verið mikið að gera síðustu daga og kláruðust sem dæmi snúðarnir í hádeginu í dag. Skúli gerir ráð fyrir því að vakna eldsnemma á morgun til að baka enn meira en hann gerði í dag.