Handbolti

Stórsigur hjá stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir var með átta mörk og sex stoðsendingar í leiknum en ekkert marka hennar kom úr víti.
Elín Klara Þorkelsdóttir var með átta mörk og sex stoðsendingar í leiknum en ekkert marka hennar kom úr víti. HSÍ

Íslenska nítján ára landsliðið í handbolta endaði taphrinu sína á Evrópumeistaramótinu í Rúmeníu með stórsigri í dag.

Stelpurnar unnu þá níu marka sigur á Króatíu, 35-26, í seinni leik liðsins í milliriðli. Íslenska liðið tryggði sér með þessu þriðja sætið í milliriðlinum og spilar því um níunda til tólfta sæti á mótinu.

Íslensku stelpurnar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik en þær unnu fyrri hálfleikinn 18-14. Þær bættu síðan í þeim síðari sem þær unnu 17-12.

Íslenska liðið hafði tapað fjórum fyrstu leikjum sínum á mótinu en það voru leikir á móti Rúmeníu, Þýskalandi, Portúgal og Hollandi.

Gróttukonan Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði tíu mörk úr þrettán skotum og Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir var með átta mörk og sex stoðsendingar.

Valskonan Lilja Ágústsdóttir skoraði fimm mörk og HK-ingurinn Embla Steindórsdóttir var með þrjú mörk og sjö stoðsendingar.

HK-konan Ethel Gyða Bjarnasen varði mjög vel í markinu eð 12 skot þar af voru tvö vítaskot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×