„Orð geta ekki lýst því hversu þungbært það er að missa vinnufélaga og vini í svo hörmulegu slysi. Höggvið var stórt skarð í fámennan og þéttan starfsmannahóp. Verkefni næstu daga verða fyrst og fremst að halda utan um hvert annað, styðja og styrkja til að takast á við áfallið saman,“ segir á vef Náttúrustofu Austurlands.
Voru að sinna rannsóknum
Fríða og Skarphéðinn sinntu rannsóknum og vöktun á hreindýrastofninum hér á landi og var flugið á sunnudag hluti af því verkefni. Að sögn Náttúrustofunnar eru árlega farnar nokkrar flugferðir til þess að telja hreindýr úr lofti og það verið hluti af verkefnum hennar í mörg ár.
„Hugur okkar er fyrst og fremst hjá fjölskyldu og ástvinum allra þeirra sem létust. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.“
Minningarstund vegna slyssins fór fram í Egilsstaðakirkju í kvöld. Flugvélin fannst við Sauðahnjúka milli Hornbrynju og Hraungarða síðdegis á sunnudag. Vettvangsrannsókn lögreglunnar á Austurlandi telst nú lokið var flugvélin flutt af slysstað í gær í húsakynni Rannsóknarnefndar samgönguslysa.