Hafrannsóknarstofnun gaf nýverið út skýrslu sem sýndi fram á það án nokkurs vafa að sjókvíaeldið hefur stofnað íslenska laxastofninum í mikla hættu. Ef miðað er við niðurstöður stofnunarinnar má ætla að hnitmiðuð árás hafi verið gerð á villta laxinn og heimkynni hans. Tilgangurinn var mögulega sá að skapa rými fyrir frjóann norskann eldislax og réttlætingin hefur verið atvinnusköpun og útflutningstekjur. Sorglegar niðurstöður skýrslunnar fjalla um erfðablöndun vegna strokulaxa úr sjókvíaeldi. Sú erfðablöndun er sannanlega hafin í íslenskum ám og mun hafa versnað til muna næst þegar erfðablöndunin verður könnuð því tölurnar nú eiga við um skaða sem varð af margfalt minna sjókvíaeldi en nú er stundað.
Af hverju er erfðablöndun hættuleg fyrir villta laxinn?
Það er eðlilegt að fólk spyrji sig af hverju erfðablöndun er villtum laxi hættuleg, þ.e. fyrir utan hið augljósa að hreinleiki stofnsins hafi þegar skaðast. Talsmenn sjókvíaeldis halda því á lofti að erfðablöndun muni ekki skaða villta laxinn, og að náttúruverndarsinnar eigi bara að hætta þessu væli. Raunin er hins vegar sú að sjókvíaeldi er stærsta ógnin við villta laxastofna. Laxastofnar í öðrum löndum eru orðnir mikið erfðablandaðir og eru þeir því miður að fjara út.
Erfðablöndun á sér stað þegar eldislax sleppur úr sjókví, finnur sér á til að synda upp í og hrygnir svo með villtu löxunum í þeirri á. Munurinn á villta laxinum og eldislaxinum er mikill. Sá villti hefur aðlagast aðstæðum á Íslandi og í sinni heima-á síðan á síðustu ísöld. Þeirra eðli er að lifa af í náttúrunni, synda þvert yfir atlantshafið, koma svo aftur í sína heima-á og fjölga sér svo að hringrásin geti endurtekið sig. Eldislaxinn er hins vegar húsdýr sem hefur verið erfðabætt í nær fimm áratugi, með það eina markmið að stækka og fitna sem hraðast, svo að hann komist sem allra fyrst á disk neytenda. Samt sem áður hefur þetta húsdýr sama eðli og villti laxinn, þ.e. að hrygna og fjölga sér. Þegar villti laxinn og eldislaxinn eignast afkvæmi er því verið að draga úr hæfni afkvæmisins til að lifa af í sínu náttúrulega umhverfi. Þetta gerist síðan aftur og aftur, erfðaefnið þynnist út og á endanum munu afkvæmin einfaldlega ekki vera hæf til þess að viðhalda stofninum. Þetta er nokkuð sem talsmenn sjókvíaeldis hafa haldið ranglega fram að verði ekki vandamál. Það er einfaldlega vísvitandi lygi og það þarf ekki að horfa lengra en til Noregs til sjá það. 70% laxastofna þar eru nú erfðablandaðir og færri og færri laxar koma til baka í árnar. Á heimsvísu hefur Atlantshafslaxi fækkað um 70% á síðastliðnum 40 árum. Spurningin er því einfaldlega: Viljum við hækka það upp í 100% ? Viljum við vera kynslóðin sem útrýmdi villta laxinum fyrir ofsagróða norskra sjókvíaeldisfyrirtækja? Myndum við leyfa frjóum erlendum hestum til manneldis að hlaupa hér um grundir á meðal íslenska hestsins? Samkvæmt skoðanakönnunum segir þjóðin nei við sjókvíaeldi og þar með þessum spurningum.
Eldið margfalt í dag miðað við fyrir nokkrum árum
Í rannsókn Hafrannsóknarstofnunar voru tæplega 6.500 laxaseiði rannsökuð og tekin úr þeim erfðasýni, en meðal framleiðsla í sjókvíaeldi á Íslandi á þeim tíma sem sýnin voru tekin var um 6.900 tonn. Framleiðslan í dag er um 43.000 tonn og stendur til að auka hana til muna. Það má því áætla að staðan sé mun verri í dag eins og áður segir, þar sem að sýnin í rannsókninni eru ekki ný. Erfðablöndun mælist í 4,3% sýna og erfðablöndun greindist í nokkrum af merkustu laxveiðiám landsins. T.d. Víðidalsá, Hofsá og Laxá í Aðaldal, allt að 250km frá sjókvíum. Sem dæmi má nefna að Arnarlax missti meira en 80,000 eldislaxa úr kví árið 2021 og gerir ágreining vegna sektar sem þeim var gert að greiða vegna þess. Allir þeir eldislaxar og afkvæmi þeirra eru ekki með í þessari rannsókn sem nú var birt. Talsmenn sjókvíaeldis hafa staðfastlega haldið því fram að laxinn sem sleppi fari ekki langt og hægt sé að 10-12 falda sjókvíaeldi í sátt og samlyndi við náttúru og villtan lax. Þó án þess að sýna fram á nein rök eða gögn sem styðja það. Hvernig er hægt að halda þessu fram? Hér fyrir neðan má sjá kort síðan 2016 sem sýndi útbreiðslu regnbogasilungs sem sloppið hafði úr sjókvíaeldi. Fiskar eru með sporð og þeir synda þangað sem þeir ætla sér. Þeir virða engin fjarlægðarmörk eða takmarkanir mannanna.
Staðan er einföld. Við þurfum að hætta að slá ryki í augun á fólki og tala hreint út. Sjókvíaeldi er úrelt og mengandi starfsemi sem mun valda því að villtur lax deyr út. Sjókvíaeldi er arðbærasta og ódýrasta leiðin (fyrir fyrirtækin) til að framleiða lax, þess vegna halda talsmenn þessa iðnaðar því fram að allt sé í góðu. Það er einfaldlega ekki hægt að stunda þennan iðnað í sátt og samlyndi við náttúru. Það hefur verið reynt í mörgum löndum, og hvergi hefur það tekist. Sjókvíeldi i opnum kvíum á frjóum fiski á Íslandi er dauðadæmt vegna þessa.
Stjórnarsáttmáinn: Verður staðið við hann?
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er eftirfarandi haldið fram: „Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna“.
- Vísindin tala sínu máli. Þetta gengur ekki upp....Erfðablöndun hefur átt sér stað, mun aukast og nú þegar eru villtir stofnar farnir að líða fyrir það.
- Sjálfbærni er hugtak sem sjókvíaeldisfyrirtæki skreyta sig með til þess að selja vöru sína, en starfsemin er að þurrka út villtan lax. Það er augljóslega ekki sjálfbært og ber fremur að skilja slíkar yfirlýsingar sem vísbendingu um óheilindi þessa iðnaðar.
- Verndun villtra laxastofna er setning sem lítur vel út á blaði, en ef það er virkilega ætlun þessarar ríkisstjórnar, verður að grípa strax í taumana og hætta þessari starfsemi.
Það er búið að reyna þetta annars staðar, hluthafar græða en náttúran tapar. Það er svoleiðis þar og hér og alls staðar þar sem þessi starfsemi er stunduð. Hættum að slá ryki í augun á fólki og gerum það sem er rétt í stöðunni. Það sem er rétt fyrir náttúruna, það sem er rétt fyrir komandi kynslóðir og það sem er rétt fyrir konung fiskanna, villta laxinn. Hættum að stunda sjókvíaeldi áður en það verður of seint og villti laxinn fer sömu leið og Geirfuglinn.
Höfundur er framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna, (NASF).