Innlent

Voru stödd við upp­tök skjálftans: „Höfum aldrei upp­lifað annað eins“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Hjónin Halldór og Ragnheiður voru stödd við Kleifarvatn þegar skjálftinn reið yfir.
Hjónin Halldór og Ragnheiður voru stödd við Kleifarvatn þegar skjálftinn reið yfir. Aðsendar

Jarðskjálfti að stærðinni 4,5 reið yfir rétt fyrir klukkan 18 í dag. Skjálftinn átti upptök sín vestan við Kleifarvatn. Hjón sem voru stödd við vatnið þegar skjálftinn kom segjast aldrei hafa upplifað annað eins. 

„Við héldum að það væri bara hreinlega komið eldgos, þetta var það mikill hávaði,“ segir Ragnheiður Ragnarsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ, í samtali við fréttastofu. 

Ragnheiður ákvað að nýta góða veðrið og fara hringinn í kringum Reykjanes ásamt Halldóri Halldórssyni, eiginmanni sínum. Þau voru búin að vera að keyra allt nesið þegar þau komu að Kleifarvatni.

„Við ákváðum að fara aðeins út og teygja úr okkur og þá bara gerist þetta. Þetta var svakalegt, við hjónin höfum aldrei upplifað annað eins og við búum nú hér á svæðinu.“

Björgunarsveitarhjón með búnaðinn í bílnum

Hjónin hlupu beint í bílinn sinn og keyrðu af stað. Það var þá sem þau sáu að grjót hafði hrunið á veginn vegna skjáltans. „Það var mildi að við vorum ekki nýlögð af stað þegar skjálftinn reið yfir því þá hefðum við bara fengið þetta á bílinn og okkur,“ segir Ragnheiður.

Þau hjónin voru þó við öllu búin enda saman í björgunarsveit. „Við störfum bæði í Landsbjörg, búin að gera það í ansi mörg ár og störfum enn.“

Ragnheiður segir að þau hjónin hafi meira að segja verið með björgunarsveitarbúnaðinn í bílnum. Ef eitthvað skyldi koma upp á þá séu þau til taks að hjálpa til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×