Á vef stjórnarráðsins segir að Árni Þór Sigurðsson sendiherra muni flytjast frá sendiráði Íslands í Moskvu í starf sendiherra í Kaupmannahöfn frá 1. ágúst.
„Helga Hauksdóttir sendiherra flyst þá frá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í stöðu sendiherra og fastafulltrúa í Vín. Kristín A. Árnadóttir sendiherra lætur af störfum í utanríkisþjónustunni.
Hildigunnur Engilbertsdóttir, þróunarsamvinnufulltrúi hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, verður forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala í Úganda frá 1. ágúst og Þórdís Sigurðardóttir, núverandi forstöðumaður, flyst til starfa í ráðuneytinu.
Ásdís Bjarnadóttir flyst frá þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins í starf forstöðumanns sendiráðs Íslands í Freetown í Síerra Leóne sem gert er ráð fyrir að verði opnað síðar á árinu.
Ofangreindar breytingar eru háðar samþykki viðkomandi stjórnvalda,“ segir á vef ráðuneytisins.