Handbolti

Frumsýna heimildamynd um víðtækt dómarasvindl í handbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dragan Nachevski, fyrrverandi formaður dómaranefndar EHF, er grunaður um að hafa reynt að fá dómara til að hagræða úrslitum leikja.
Dragan Nachevski, fyrrverandi formaður dómaranefndar EHF, er grunaður um að hafa reynt að fá dómara til að hagræða úrslitum leikja. getty/Igor Soban

Í kvöld verður fyrri hluti heimildamyndar um hagræðingu úrslita í handbolta frumsýndur á TV 2 í Danmörku.

Myndin nefnist Grunsamlegur leikur og hefur verið í vinnslu í fjögur ár. Fyrri hlutinn verður sýndur í kvöld en sá seinni eftir viku.

Í maí var Dragan Nachevski, formaður dómaranefndar EHF, settur til hliðar vegna uppljóstrana TV 2.

Í myndinni er meðal annars rætt við fyrrverandi dómara sem lýsir því þegar Nachevski bað hann um að hafa áhrif á úrslit leiks. Í staðinn var honum lofað enn frekara brautargengi á framabrautinni.

Dómarinn kemur ekki fram undir nafni í myndinni. Hann segist ekki hafa látið undan pressu frá Nachevski og reynt að hafa áhrif á úrslit leiksins.

Dómarinn tilkynnti málið þó ekki til EHF enda kvaðst hann viss um að ekkert yrði gert og málinu stungið ofan í skúffu.

Nachevski hefur sjálfur neitað sök en handboltadómstóll EHF er með mál Norður-Makedóníumannsins til rannsóknar.

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Gjorgji Nachevski er einnig með grunaður um að vera með óhreint mjöl í pokahorninu.getty/Sanjin Strukic

Sonur Nachevski, Gjorgij, er í hópi fremstu dómara heims. Hann var settur til hliðar vegna gruns um hagræðingu úrslita. 

Þetta kom fram í skýrslu fyrirtækisins SportRadar um að úrslitum í 26 leikjum frá september 2016 til nóvember 2017 hafi verið hagrætt. Nokkrir dómaranna sem áttu að hafa tekið þátt í því dæmdu á HM 2023, meðal annars Nachevski. Auk þess að hafa tekið þátt í að hagræða úrslitum leikja er Nachevski yngri grunaður um að hafa tengsl við skipulögð glæpasamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×