Enski boltinn

Cloé Eyja orðin leikmaður Arsenal

Sindri Sverrisson skrifar
Cloé Lacasse lék við afar góðan orðstír með ÍBV og bjó hér á landi svo lengi að hún fékk íslenskan ríkisborgararétt. Nú er hún orðin leikmaður enska stórliðsins Arsenal.
Cloé Lacasse lék við afar góðan orðstír með ÍBV og bjó hér á landi svo lengi að hún fékk íslenskan ríkisborgararétt. Nú er hún orðin leikmaður enska stórliðsins Arsenal. Samsett/Vísir/Arsenal.com

Cloé Eyja Lacasse, kanadíska landsliðskonan sem er með íslenskan ríkisborgararétt, var í dag kynnt sem nýjasti leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal.

Cloé, sem er 29 ára, skoraði 73 mörk í 113 leikjum fyrir ÍBV þegar hún lék hér á landi á árunum 2015-2019.

Hún öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt en fékk ekki heimild hjá FIFA til að spila fyrir íslenska landsliðið þar sem að hún bjó ekki samfleytt í fimm ár hér á landi, áður en hún flutti til Portúgals sumarið 2019 til að spila fyrir Benfica.

Ferill Cloé hefur hins vegar náð enn meira flugi í Portúgal þar sem hún hefur skorað 100 mörk í 129 leikjum fyrir Benfica, í öllum keppnum, og nú er hún orðin leikmaður Arsenal auk þess að vera komin inn í kanadíska landsliðið og á leið á HM í Eyjaálfu í júlí.

„Ferillinn minn hefur í raun bara verið á uppleið, sérstaklega síðustu tvö ár. Ég tel mig tilbúna bæði líkamlega og andlega til að leggja mitt af mörkum hérna og vinna titla,“ segir Cloé á heimasíðu Arsenal og kveðst sérstaklega spennt fyrir því að spila í Meistaradeild Evrópu.

Næst á dagskrá hjá henni er hins vegar heimsmeistaramótið með kanadíska landsliðinu:

„Það er frekar nýtt fyrir mér að spila fyrir landsliðið mitt svo það hefur verið súrrealísk upplifun og það hefur heimsins mestu þýðingu fyrir mig að vera að fara á HM fyrir Kanada, sem er auðvitað staðurinn þar sem ég ólst upp og þar sem fjölskyldan mín er. Ég hef í raun ekki enn náð að melta þetta en það gerist þegar ég mæti þangað, og ég er ofurspennt og tilbúin að hitta stelpurnar þarna og vonandi fara heim með heimsmeistarabikarinn,“ segir Cloé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×