Katrín er stödd í Vestmannaeyjum með forsætisráðherrum Norðurlandanna og forsætisráðherra Kanada sem funda þar í dag. Hún ræddi skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem birt var í morgun um 1,2 milljarða króna sátt við Íslandsbanka vegna galla á framkvæmdinni á sölu á hlut ríkisins í bankanum.
Katrín ræddi við fjölmiðla í Eyjum og sagði ljóst hvað varðar framkvæmdina á sölunni að hún hefði ekki gengið vel. Það væri mjög alvarlegt mál. Stór hluti bankans, eða fjörutíu prósent, séu í eigu almennings og ljóst að stjórnendur og stjórn bankans þurfi að standa skil á sínum gjörðum gagnvart almenningi.
Katrín sagði greinilega hafa verið mjög vel vandað til verka við gerð skýrslunnar sem gæfi heildstæða mynd af röð atburða.
„Það er alveg ljóst að framin voru alvarleg brot á þeim reglum sem eiga að gilda af hálfu bankans. Það kemur líka fram í skýrslunni að Bankasýslan hafi fengið villandi upplýsingar frá bankanum sem er mjög alvarlegt. Það kemur fram að sýndur hafi verið skortur á áhættuvitund. Það er ljóst að þessi skýrsla er áfellisdómur um vinnubrögð Íslandsbanka,“ segir Katrín.
„Það blasir við að þetta er áfellisdómur.“
Málið verði rætt í ríkisstjórn í fyrramálið og í framhaldinu fundi ráðherranefnd um efnahagsmál. Í nefndinni eiga auk Katrínar sæti Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum.
Hvorki Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka né Finnur Árnason stjórnarformaður bankans hafa gefið kost á viðtölum það sem af er degi.