Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið harðorður í yfirlýsingum eftir að matvælaráðherra stöðvaði veiðarnar á þriðjudag, degi áður en þær áttu að hefjast.
Á annað hundrað starfsmenn hafi verið reiðubúnir fyrir vertíðina og þetta væri mikill skellur fyrir þá. Sjálfstæðisflokkurinn og framsóknarflokkurinn hlytu að slíta stjórnarsamstarfinu vegna þessarar ákvörðunar.

Vilhjálmur sat fundinn í kvöld þar sem Steinar Adolfsson yfirlögfræðingur Akranesskaupstaðar var fundarstjóri. Öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis og Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra var boðið á fundum til að gera grein fyrir sinni afstöðu. Eftir það var opnað á fyrirspurnir úr sal.
Fundinum er lokið en hann má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. Þá er hægt að lesa um það sem fram fór á fundinum í vaktinni neðst í fréttinni.
Komið hefur fram að hátt á annað hundrað manns hafi verið ráðin til starfa vegna fyrirhugaðra hvalveiðivertíðar. Vilhjálmur segir að rúmlega hundrað þeirra væru á áhrifasvæði Verkalýðsfélags Akraness og greiddu sín gjöld til félagsins. Stór hluti þeirra byggi á Akranesi eða í Hvalfjarðarsveit. Þá störfuðu um tuttugu manns hjá Hvali hf. í Hafnarfirði en starfsmenn gætu komið víða að á landinu.
Þingmenn Norðvesturkjördæmis eru Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir úr Framsóknarflokki, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Teitur Björn Einarsson úr Sjálfstæðisflokki, Bjarni Jónsson úr Vinstri grænum, og Bergþór Ólason úr Miðflokknum.
Eyjólfur Ármannsson úr Flokki fólksins átti að mæta á fundinn en komst því miður ekki. Í samtali við fréttastofu segist hann vera hlynntur hvalveiðunum svo lengi sem þær eru ekki dýraníð. Þá telur hann að ákvörðun ráðherra sé galin stjórnsýsla, brotið sé gegn lögmætum væntingum Hvals hf. og gæti ríkið því verið skaðabótaskylt.