Við breytingu á sveitarstjórnarlögum frá 2022 tók gildi ákvæði um að sveitarstjórn sé heimilt að samþykkja að 16 ára og eldri mega kjósa í íbúakosningum. Í tilkynningu sveitarfélagsins segir að ungmennaráð Hornafjarðar hafi haldið skuggakosningar frá árinu 2016 og því séu ungir kjósendur öllu vanir.
„Við mættum og ætluðum að skila seðli inn á bæjarskrifstofu. Við vorum ekki búnir undir þetta en vorum spurðir hvort við ætluðum að nýta kosningaréttinn og vissum ekki mikið. Þarna kynntum við okkur einhverja pappíra og kusum um hvort það eigi byggja eða ekki. Þetta var svolítið skrýtið,“ segir Ingólfur Vigfússon, annar ungu kjósendanna í samtali við fréttastofu. Hann, ásamt Maríusi Mána, vinnur í málningarþjónustu á Vík í sumar.
„Mér finnst þetta alveg skynsamlegt. Til dæmis með mig, sem mun búa hérna í framtíðinni, mig langar kannski ekkert að láta byggja þarna.“
Treystirðu jafnöldrum þínum til að kjósa og taka upplýsta ákvörðun?
„Já ég myndi alveg treysta þeim, svona flestum.“
Ingólfur segist líka vel að búa á Höfn í Hornafirði og nýtur friðsældarinnar í náttúrunni. Hann stundar nú nám við Fjölbrautaskóla Austur-Skaftafellssýslu og stefnir á iðnnám í höfuðborginni að námi loknu.