Fótbolti

Frakkar með fullt hús stiga í B-riðli eftir 1-0 sigur á Grikkjum

Siggeir Ævarsson skrifar
Kylian Mbappe skoraði eina mark Frakklands úr vítaspyrnu í seinni hálfleik og setti franskt met í markaskorun í öllum keppnum með lands- og félagsliði.
Kylian Mbappe skoraði eina mark Frakklands úr vítaspyrnu í seinni hálfleik og setti franskt met í markaskorun í öllum keppnum með lands- og félagsliði. Vísir/Getty

Frakkland er með fullt hús stiga í B-riði í undankeppni EM 2024 í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Grikkland. Frakkar hafa oft leikið betur en í kvöld en það kom ekki í veg fyrir að þeim tækist að landa sigri.

Grikkir vörðust vel og létu Frakka hafa töluvert fyrir hlutunum í kvöld. Mavropanos hljóp þó mögulega full mikið kapp í kinn en hann fékk rautt spjald á 70. mínútu og kláruðu Grikkir leikinn manni færri.

Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu og var það markahrókurinn Mbappe sem skoraði. Var þetta 54. mark hans á tímabilinu, samanlagt með félags- og landsliði, sem er franskt met. 

Frakkar hafa nú farið taplausir í gengum ellefu síðustu leiki sína í undankeppni EM, og unnið níu af þeim. Fyrir leikinn höfðu Grikkir unnið sjö af átta keppnisleikjum sínum, og verða að teljast nokkuð líklegir til að taka annað sætið í riðlinum, að því gefnu að Frakkland haldi áfram á sama skriði og taki efsta sætið.

Það er þó ekki hægt að ganga að neinu vísu í þessum riðli, nema kannski að örlandið Gíbraltar endar alveg örugglega í neðsta sæti, en Írland lagði þá auðvelda 3-0 í kvöld þar sem leikmenn Gíbraltar sáu aldrei til sólar.

Síðasta þjóðin í riðlinum er svo Holland, sem töpuðu fyrir Frökkum í fyrstu umferð 4-0 en lögðu svo Gíbraltar 3-0. Þeir eiga ekki leik næst fyrr en í september þar sem þeir mæta Grikkjum, sem gæti orðið algjör lykilleikur upp á framhaldið í riðlinum að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×