Fótbolti

Rétt yfir tvö þúsund miðar eftir á stór­leik kvöldsins

Aron Guðmundsson skrifar
Tólfan verður öflug í stúkunni í kvöld
Tólfan verður öflug í stúkunni í kvöld Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Búast má við mikilli stemningu á Laugar­dals­velli í kvöld þegar að ís­lenska karla­lands­liðið í fót­bolta etur kappi við Slóvakíu í afar mikil­vægum leik í undan­keppni EM 2024.

Enn eru til miðar á leik kvöldsins en Ómar Smára­son, deildar­stjóri sam­skipta­deildar KSÍ, vonast til þess að tala ó­seldra miða fari hratt lækkandi í dag.

„Það eru farnir út úr kerfinu rétt tæp­lega 7500 miðar, þannig að það eru 2300 miðar eftir,“ segir Ómar í sam­tali við Vísi. „Vonandi tikkar það út eitt­hvað yfir daginn, það er gott veður úti og svona. Eigum við ekki að vona að það bættist því við tölu seldra miða.“

Gera má ráð fyrir því að fjöl­skyldu­fólk verði út um hvippinn og hvappinn í borginni í dag á sjálfan þjóð­há­tíðar­dag Ís­lendinga og gætu margir kannski hugsað sér gott til glóðarinnar og keypt miða á völlinn. Eru þið hjá KSÍ kannski að binda smá vonir við það?

„Já auð­vitað. Vonandi á­kveður fólk bara að enda frá­bæran þjóð­há­tíðar­dag á þjóðar­leik­vanginum sjálfum og styðja strákana okkar í leiknum í kvöld.“

Það verður alla­vegana hægt að finna eitt­hvað við hæfi allra í Laugar­dalnum í dag. KSÍ hefur skipu­lagt stuðnings­manna­svæði við Laugar­dals­völlinn þar sem verður að finna matar­vagna, hoppu­kastala, and­lits­málun og kandífloss.

Þá verður einnig boðið upp á knatt­þrautir en svæðið verður opið frá klukkan 15:00 til 18:15.

„Við hvetjum öll til þess að mæta þangað, kjörið að senda krakkana í and­lits­málun, knatt­þrautir og fá sér eitt­hvað gott að borða og drekka.“

Miða­sala fer fram á Tix.is og verður þar hægt að kaupa miða alveg fram að leik og jafn­vel gott betur.

„Það er lang­best að verða sér út um miða þar. Miða­þjónusta KSÍ verður síðan opnuð á Laugar­dals­velli nokkrum klukku­stundum fyrir leik. Hún er meira hugsuð sem þjónusta fyrir þá stuðnings­menn sem lenda í vand­ræðum, ná kannski ekki að prenta út sína miða. Þar geta líka mótsmiða­hafar, sem hafa ekki sótt kortin sín, nálgast þau.“

Hægt er að kaupa miða á stór­leik Ís­lands og Slóvakíu í undan­keppni EM 2024 í fót­bolta hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×