Enski boltinn

Sjeikinn sagður eignast Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United hefur verið í eigu bandarísku Glazer-fjölskyldunnar frá árinu 2005.
Manchester United hefur verið í eigu bandarísku Glazer-fjölskyldunnar frá árinu 2005. Getty/Naomi Baker

Samkvæmt fréttum frá Katar hafa núverandi eigendur enska knattspyrnufélagsins Manchester United samþykkt tilboð sjeiksins Jassim bin Hamad al-Thani. Samkvæmt því verður enska félagið brátt alfarið í eigu katarska sjeiksins.

Sjeikinn og breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe hafa síðustu mánuði barist um að eignast United en bandarískir eigendur félagsins hafa beðið með að taka ákvörðun. Samkvæmt Daily Mail ætti ákvörðunin þó að liggja fyrir í þessari viku.

Og nú hefur katarska blaðið Al-Watan, sem er í eigu föður Jassim og fyrrverandi forsætisráðherra Katar, fullyrt að yfirtaka hans hafi heppnast. Tilkynnt verði um það bráðlega.

Öfugt við Ratcliffe, sem sóst hefur eftir um 60% hlut í United, þá hefur Jassim viljað eignast allt félagið og er tilboð hans sagt hljóða upp á 5 milljarða punda, eða um 870 milljarða króna.

Glazer-fjölskyldan, núverandi eigendur United, tilkynnti fyrst um það í nóvember að til greina kæmi að selja félagið – sama kvöld og tilkynnt var um það að Cristiano Ronaldo færi frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×