Tekjur Hvals á liðnu fjárhagsári, sem nær frá október 2021 til loka september 2022, námu samtals um tæplega 1,4 milljörðum króna borið saman við 4,23 milljarða á fyrra ári en það litaðist mjög af söluhagnaði þegar félagið seldi eftirstandandi hlut sinn í Origo.
Tekjur Hvals í fyrra komu einkum til vegna eignarhluta í hlutdeildarfélögum, þar munar mestu um stóran hlut í Hampiðjunni, og arðgreiðslum sem fjárfestingafélagið fékk í sinn hlut. Vaxtatekjur og virðisbreyting verðbréfasjóða var hins vegar neikvæð um nálægt 400 milljónir sem eru umskipti til hins verra frá fyrra ári þegar þær skiluðu félaginu tekjum upp á meira en 700 milljónir.
Hvalur er eitt stöndugasta fjárfestingafélag landsins eftir að þáverandi dótturfélags þess, Vogun, seldi þriðjungshlut sinn í HB Granda vorið 2018 með um 13 milljarða hagnaði. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Hvals, er stærsti einstaki hluthafi félagsins en hann fer fyrir 11,4 prósenta hlut í eigin nafni auk þess sem Fiskveiðihlutafélagið Venus, sem hann er í forsvari fyrir, er með 42,3 prósenta eignarhlut.
Bókfært eigið fé Hvals stóð í tæplega 23 milljörðum króna í lok september í fyrra og minnkaði lítillega milli ára. Félagið er nánast skuldlaust, einu skuldirnar eru rekstrarlán í japönskum jenum upp á rúmlega 2,2 milljarða, og eiginfjárhlutfallið því nálægt 90 prósentum.
Raunverulegt eigið fé Hvals er hins vegar talsvert meira sé litið til þess að eignarhlutur félagsins í Hampiðjunni, sem mun færast yfir á Aðalmarkaðinn í Kauphöllinni síðar í vikunni, er ekki bókfærður á markaðsvirði í reikningum félagsins. Þannig er hlutur Hvals í Hampiðjunni, sem nemur núna tæplega 37 prósentum eftir nýafstaðið hlutafjárútboð fyrirtækisins, ásamt helmingshlut í Íslenska gámafélaginu metinn á rúmlega 9,8 milljarða í ársreikningnum en sé litið til núverandi gengi hlutabréfa Hampiðjunnar er markaðsvirði eignarhlutar Hvals um 31 milljarður króna.
Fram kemur í skýrslu stjórnar Hvals með nýbirtum ársreikningi að lagt verði til að greiða einn milljarð króna í arð til hluthafa.
Eftir að hafa ekki stundað hvalveiðar frá árinu 2018 hóf Hvalur að nýju veiðar í júní á síðasta ári og veiddi þá samtals 148 langreyðar. Tekjur af sölu hvalveiða námu tæplega 45 milljónum króna og lækka nokkuð milli ára en lítið var til af birgðum þar sem ekki hafði verið veiddur hvalur um nokkurra ára skeið.
Samkvæmt ársreikningi félagsins nam kostnaður við rekstur hvalveiðiskipa, kostnaður við hvalveiðistöðina í Hvalfirði og eins útflutningstengdur kostnaður samtals um 2,4 milljarðar króna og jókst um meira en tvo milljarða milli ára. Á sama tíma jukust verulega hvalabirgðir félagsins og eru slíkar frystar afurðir félagsins bókfærðar á tæplega 2,6 milljarða í lok september 2022 borið saman við 338 milljónir árið áður.
Aðrar helstu eignir Hvals eru hlutdeildarskírteini í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum að fjárhæð 2,85 milljarðar króna og minnka um meira en þrjá milljarða milli ára. Þá fer Hvalur með um 2,2 prósenta hlut í Arion banka, sem er bókfærður á 5,9 milljarða króna, auk þess að eiga 0,33 prósenta hlut í Marel sem var metinn á 1,4 milljarð í lok september 2022. Félagið bætti við sig fimm hundruð þúsund hlutum að nafnvirði í Marel á síðasta fjárhagsári fyrir samtals 282 milljónir króna sem þýðir að félagið hefur keypt á gengi í kringum 564 krónur á hlut en það stendur núna í um 445 krónum.
Fjárfestingafélagið Hvalur er á meðal stærstu innlendu einkafjárfestanna í hluthafahópi Alvotech eftir að hafa fjárfest fyrst í líftæknilyfjafyrirtækinu í upphafi árs 2021 í gegnum samlagshlutafélagið ATH20. Því félagi var hins vegar slitið í fyrra og fengu hluthafar afhent bréf sín í Alvotech í samræmi við hlutdeild sína en Hvalur átti um 570 þúsund hluti að nafnvirði. Í lok september í fyrra fór Hvalur með samtals 1,57 milljónir hluta í Alvotech, sem jafngilti um 0,5 prósenta eignarhlut, og var hann þá metinn á rúmlega 1,6 milljarð króna að markaðsvirði.
Hluthöfum Hvals fjölgaði lítillega á síðasta ári, eða úr 88 talsins í 92. Á árinu keypti félagið eigin hluti fyrir samtals tæplega 28 milljónir króna og var gengið í þeim viðskiptum 215 krónur á hlut að nafnvirði. Ástæður kaupanna voru að hluthafar buðu félaginu hluti til að kaupa.
Miðað við gengið í þeim kaupum er hlutafé Hvals verðmetið á um 31 milljarð króna sem er talsvert yfir bókfærðu eigin fé félagsins.