Innlent

Bagalegt ástand á Ísafirði vegna sandfoks

Árni Sæberg skrifar
Frá framkvæmdum við Sundahöfn. Þær hafa staðið töluvert lengur yfir en til stóð.
Frá framkvæmdum við Sundahöfn. Þær hafa staðið töluvert lengur yfir en til stóð. Facebook/Ísafjarðarhafnir

Mikið sandfok varð á Ísafirði í gær þegar sandur úr sandhaug, sem dælt hafði verið upp úr sundahöfn, fauk. Hafnarstjórinn segir málið bagalegt.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að dýpkun Sundahafnar á Ísafirði, í þeim tilgangi að liðka fyrir komum stærri skipa, fullum erlendum ferðamönnum.

Tafir á komu dýpkunarskips Björgunar hafa tafið framkvæmdirnar mikið, en þær áttu að hefjast í maí í fyrra. Nú hafa tafirnar valdið óvæntum vandræðum, miklu sandfoki.

„Við skulum bara segja að sökum tafa við á framkvæmd þá er þessi sandhaugur þarna sem á eftir að slétta úr og sá í. Þetta átti að vera löngubúið, þetta átti að klárast í vetur. Þannig að það átti að sá í þetta með vorinu og þá hefðum við ekki verið í þessum sporum í dag.

Segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri hafna Ísafjarðarbæjar.

Bærinn slapp

Hann segir að blessunarlega hafi verið sunnanátt í gær og sandurinn því fokið norður eftir hafnarsvæðinu, en ekki yfir bæinn. Þá hafi engar skemmdir orðið á hafnarsvæðinu.

„Ekki sem ég hef heyrt af. Þetta er það fínt efni sem er að fjúka, þetta er eiginlega bara leir. Það er náttúrulega óþægilegt að fá þetta í augun og svoleiðis en ég held að þetta sé ekki sandur sem er að skemma lakk og slíkt,“ segir hann.

Hilmar segir málið bagalegt og að unnið sé að því að finna lausn til þess að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

„Til að úða yfir þennan sandhaug, til að reyna að hemja þetta, erum við svona að þreifa fyrir okkur með fyrirtæki í Reykjavík, reyna að fá úðastúta og græjur, sem við getum sett þarna til að hemja þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×