Erlent

Fyrsta áætlunarflug kínverskrar farþegaþotu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kínverska farþegaþotan C919 á Hongqiao-flugvelli áður en hún flaug jómfrúarferð sína.
Kínverska farþegaþotan C919 á Hongqiao-flugvelli áður en hún flaug jómfrúarferð sína. AP/Ding Ting

Farþegaþota smíðuð af kínverskum flugvélaframleiðenda flaug fyrsta áætlunarflug sitt frá Sjanghæ til Peking á sunnudag. Kínverjar hyggjast veita risum á borð við Boeing og Airbus samkeppni á flugvélamarkaði með vélinni.

Flugvélin sem ber nafnið C919 er smíðuð af kínverska framleiðandanum COMAC og hefur verið í framleiðslu í sextán ár. C919 hefur hámarksdrægni upp á rúmlega 5.500 kílómetra og á að geta borið á milli 158 og 168 farþega.

COMAC greindi frá því að tólf hundruð C919 þotur hafi verið pantaðar og að fyrirtækið hyggist smíða 150 þotur á hverju ári næstu fimm árin.

Að sögn ríkismiðilsins China Daily ferðuðust 130 farþegar með C919-þotunni í jómfrúarflugferðinni sem var á vegum China Eastern Airlines. Þotan lagði af stað á sunnudagsmorgun frá Hongqiao-flugvelli í Sjanghæ og lenti tæpum tveimur tímum síðar í Peking. Á hlið flugvélarinnar mátti lesa orðin „Heimsins fyrsta C919“.

Þrátt fyrir að COMAC framleiði flesta hluti þotunnar er hún ekki alkínversk framleiðsla af því lykilpartar hennar eru sumir framleiddir af vestrænum framleiðendum, til dæmis hreyflarnir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×