Leikurinn fór fram á Giuseppe Meazza leikvanginum í Mílanó en heimamenn byrjuðu leikinn afar vel og voru á fyrstu þremur mínútunum búnir að skora tvö mörk.
Mörkin skoruðu þeir Nicoló Barella og Romelu Lukaku en leikmenn Atalanta heillum horfnir á þessum tímapunkti, gjörsamlega sofandi.
Þeir náðu hins vegar að vakna til lífsins og á 36. mínútu sá Mario Pasalic til þess að Atalanta minnkaði muninn. Pasalic kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Giorgio Scalvini.
Staðan í hálfleik var því 2-1, Inter Milan í vil en á 77. mínútu fór Lautaro Martinez langt með að tryggja liðinu sigur með marki eftir stoðsendingu frá Marcelo Brozovic.
André Onana, markvörður Inter Milan, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar komið var í uppbótatíma venjulegs leiktíma en það kom þó ekki að sök. Inter Milan sigldi heim 3-2 sigri.
Sigurinn gerir það að verkum að liðið hoppar upp í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og setur um leið pressu á Lazio sem situr í 3. sæti með einu stigi minna og leik til góða.
Atalanta er í 5. sæti deildarinnar með 51 stig en liðið háir harða Evrópubaráttu um þessar mundir við AC Milan, Roma og Juventus.