Sport

Katrín Tanja níunda eftir fyrstu grein

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir keppi um sæti á Heimsleikunum í CrossFit.
Katrín Tanja Davíðsdóttir keppi um sæti á Heimsleikunum í CrossFit. Mynd/Instagram/fittestincapetown

Katrín Tanja Davíðsdóttir er níunda eftir fyrstu grein í undanúrslitamóti fyrir heimsleikana í CrossFit.

Katrín keppir um þessar mundir á sterku undanúrslitamóti vesturhluta Norður-Ameríku fer fram í Pasadena sem er norðaustur af Los Angeles borg. Alls er keppt í sjö greinum og að þeim loknum munu tíu efstu konurnar vinna sér inn þátttökurétt á heimsleikunum.

Fyrsta greinin sem lauk nú rétt í þessu fólst í því að hjóla þrjá kílómetra, toga 81,5 kg lóð tæpa 26 metra, hlaupa tvo kílómetra, toga lóðið aðra tæpa 26 metra, skíða einn kílometer á skíðavél og toga svo lóðið aðra 28 metra. Keppendur höfðu 30 mínútur til að klára greinina.

Katrín Tanja átti níunda besta tímann þegar hún kláraði greinina á 29:05,00, 0,22 sekúndum betri tíma en Olivi Kerstetter sem var tíunda. Stacy Lerum átti hins vegar besta tímann þegar hún kláraði greinina á 26:51,26.

Önnur grein undanúrslitamótsins fer svo fram síðar í kvöld, en eins og áður segir verður keppt í alls sjö greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×