Alþingi samþykkti sambærilega þingsályktunartillögu í mars síðastliðnum. Það er að Ísland lýsi því yfir að hungursneyðin Holodomor í Úkraínu, árin 1932 til 1933, hafi verið hópmorð. En leitt hefur verið að því líkur að því að gjörðir stjórnar Jósefs Stalín hafi leitt hungursneyðina af sér.
Volodímír Selenskí, Úkraínuforseti hefur lagt áherslu á málið við ríki heims. Rússar hafa hafnað því að Holodomor hafi verið þjóðarmorð. Á bilinu þrjár til fimm milljónir létust.
Rússar stela korni
Neðri deild breska þingsins greiddi atkvæði með tillögunni á fimmtudag. Það var Pauline Latham, þingmaður Íhaldsflokksins, sem lagði hana fram.
Sagði Latham að þessir atburðir hefðu samhljóm með núverandi stöðu alþjóðamála. Það er að Rússar væru að stela úkraínsku korni á hernumdum úkraínskum svæðum.
„Þess vegna verðum við að veita úkraínskum stjórnvöldum og alþjóðasamfélaginu þá vissu að Bretland, eða að minnsta kosti breska þingið, muni ekki hunsa stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni,“ sagði hún.
Eistar riðu á vaðið
Eistar voru fyrsta þjóðin til að viðurkenna Holodomor sem þjóðarmorð, árið 1993. Ástralar fylgdu í kjölfarið en síðan gerðist lítið sem ekkert í áratug. Eftir samþykkt breska þingsins hafa alls 28 ríkisstjórnir og þjóðþing viðurkennt ódæðið sem og þing Evrópusambandsins.
Þetta eru meðal annars Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland, Kanada, Mexíkó, Brasilía og Vatíkanið. Úkraínumenn sjálfir viðurkenndu þjóðarmorðið árið 2006.
Þá hafa fjölmörg önnur ríki undirritað yfirlýsingu í Sameinuðu þjóðunum um að Holodomor hafi verið „harmleikur úkraínsku þjóðarinnar orsakað af ógnarstjórn.“ Meðal annars Danmörk, Finnland, Pólland, Spánn, Argentína og Ísrael.
Flest ríki Afríku, Asíu og Eyjaálfu hafa ekki skrifað undir yfirlýsingar af þessu tagi. Heldur ekki Norðmenn og Svíar.



