Það var forstjóri Vegagerðarinnar og innviðaráðherra sem opnuðu þennan vegarkafla formlega með því að klippa á borða. Fornbíll var á staðnum og tvær rútur, ein gömul og ein splunkuný rafmagnsrúta til að leggja áherslu á þær breytingar, sem hafa átt sér stað í vega- og samgöngumálum landsins í gegnum árin. Nýi vegurinn er töluvert á undan áætlun en samkvæmt útboði átti hann að vera klár í september í haust. Fyrir utan breikkun vegarins voru akstursstefnu aðskildar með vegriði. Einnig hefur tengingum fækkað inn á veginn til muna en þær voru yfir tuttugu talsins en nú eru vegamót aðeins tvenn.

„Þetta er alveg gríðarleg bót hér á vegamálum,“ segir Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi.
„Þetta er gleðidagur, ég er alveg himinlifandi með þennan dag. Þessi vegur breytir náttúrulega greiðfærni og allt það en númer 1, 2 og 3 er þetta gríðarleg bót á umferðaröryggi á einum mesta umferðarvegi landsins í ört stækkandi byggðarlagi,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.
En nú eru margir sem velta því fyrir sér af hverju þetta er ekki 2+ 2 vegur?
„Þetta er 2+2 vegur en við höfum hins vegar ekki gengið frá yfirborðinu nema 2+1 út af því að við ætluðum að nota þá peninga, sem út af stóðu í önnur mjög áríðandi verkefni,“ segir Bergþóra.

„Það er búið að vera gaman að fylgjast með þessu verki. Það er faglega unnið og flott og fyrir tímann, snyrtilegt og glæsilegt mannvirki auðvitað,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Það gerði góðan rigningarskúr við borðaklippinguna en fólk lét það ekki slá sig út af laginu.
„Og hvenær kemur sumarið?
„Ég held að það sé að byrja að glytta í það öðru hvoru en það hverfur alltaf aftur. En það kemur að lokum,“ segir Sigurður Ingi hlægjandi.
