Viðskipti innlent

Þór­dís ráðin for­stöðu­maður út­varps­miðla Sýnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórdís Valsdóttir hefur undanfarin ár verið einn umsjónarmanna Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Þórdís Valsdóttir hefur undanfarin ár verið einn umsjónarmanna Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Sýn

Þórdís Valsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður útvarpsmiðla Sýnar. Útvarpsstöðvarnar sem Þórdís mun stýra eru Bylgjan, FM957, X977, Gullbylgjan, Léttbylgjan og Íslenska bylgjan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn.

Þórdís hefur starfað sem þáttastjórnandi Reykjavík síðdegis á Bylgjunni frá árinu 2019 ásamt því að starfa við dagskrárgerð á Stöð 2. Áður var hún fræðslustjóri hjá Sýn og blaðamaður bæði á Vísi og Fréttablaðinu. Hún lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2018.

Þórhallur Gunnarsson framkvæmdastjóri fjölmiðla Sýnar segist vera einstaklega ánægður að fá Þórdísi í þetta ábyrgðarmikla verkefni.

„Rúmur meirihluti þjóðarinnar hlustar á útvarpsstöðvar okkar á hverjum degi og við viljum að svo verði áfram. Þórdís er með góða fjölmiðlareynslu og mikill leiðtogi. Ég veit hún á eftir að verða farsæl í þessu starfi.“ segir Þórhallur.

Um er að ræða nýja stöðu hjá fyrirtækinu.

„Á útvarpsstöðvunum okkar starfar frábær hópur af hæfileikaríku fagfólki með gríðarlega mikla reynslu í farteskinu og ég er spennt að taka þátt í því halda áfram að efla stöðvarnar með því frábæra fólki. Útvarp er lifandi og skemmtilegur miðill í heimi þar sem fjölmiðlar eru í stöðugri þróun og það er mér mikið kappsmál að koma móts við fjölbreyttar þarfir okkar breiða hlustendahóps,“ segir Þórdís.

Þórdís mun taka við starfinu í byrjun júní.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×