Garpur Ingason Elísabetarson fjölmiðlamaður, sem staddur er úti með hópnum, segir í samtali við fréttastofu að Þorleifur sé í virkilega góðu standi. Haldi hann áfram af sama krafti má reikna með því að hann bæti Íslandsmetið í nótt. Eins og er hefur Þorleifur hlaupið 268 kílómetra.
Í bakgarðshlaupi er tæplega sjö kílómetra hringur farinn á klukkutíma fresti þar til aðeins einn hlaupari stendur eftir. Umrætt hlaup er það næststærsta í heiminum og koma þar saman öflugustu bakgarðshlauparar heims.
Mari varð veik í miðri keppni og átti erfitt með að koma niður mat. Eins og fyrr segir lauk hún keppni á 34. hring en þá hafði hún hlaupið um 227 kílómetra, hvorki meira né minna.
Hægt er að fylgjast með á Instagram-síðu Þorleifs Þorleifssonar og Mari Järsk hefur einnig verið dugleg að sýna frá ævintýrum íslenska hópsins.