Það vantaði ekki lætin á Selfossi í dag. Þrjú rauð spjöld litu dagsins ljós þegar Fjölnir vann 2-1 útisigur á heimamönnum.
Hákon Ingi Jónsson kom Fjölni yfir á 24. mínútu en Guðmundur Tyrfingsson jafnaði metin skömmu síðar fyrir Selfyssinga. Fjölnir náði hins vegar forystunni á ný rétt fyrir hálfleik með marki frá Mána Austmann Hilmarssyni og staðan 2-1 gestunum í vil í leikhléi.
Mörkin urðu þrjú í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari litu hins vegar þrjú rauð spjöld dagsins ljós. Fyrst var Þorlákur Breki Baxter rekinn af velli þegar hann fékk beint rautt spjald og Fjölnismaðurinn Sigurvin Reynisson fékk sitt annað gula spjald sjö mínútum fyrir leikslok.
Á lokasekúndunum fékk Gonzalo Zamorano þriðja rauða spjaldið og Selfyssingar luku leik með níu leikmenn á vellinum. Lokatölur urðu 2-1 og Fjölnir fagnaði góðum útisigri.
Með sigrinum fer Fjölnir uppfyrir bæði Grindavík og Aftureldingu í efsta sæti deildarinnar en þau lið eiga leik til góða á morgun.
Markaleikur á Nesinu
Á Seltjarnarnesi mættust Grótta og Vestri. Mikkel Jakobsen kom Vestra í 1-0 eftir tæpan hálftíma en Ibrahima Balde skoraði síðan sjálfsmark og staðan þá orðin 1-1.
Vladimir Tufegdzig kom Vestra yfir á nýjan leik á 63. mínútu en reynsluboltinn Aron Bjarki Jósepsson jafnaði fyrir Gróttu sjö mínútum fyrir leikslok og þar við sat.
Bæði Grótta og Vestri eiga eftir að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni og sitja í sjöunda og níunda sæti Lengjudeildarinnar.
Upplýsingar um markaskorara og rauð spjöld eru fengin af Fótbolti.net