Körfubolti

Hannes kjörinn í stjórn FIBA Europe

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hannes er einn af tuttugu og þremur stjórnarmeðlimum FIBA Europe.
Hannes er einn af tuttugu og þremur stjórnarmeðlimum FIBA Europe. FIBA

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, var í gær kjörinn í stjórn FIBA Europe sem er Evrópuhluti Alþjóðakörfuknattleikssambandsins. 

Hannes S. Jónsson hafði gegnt starfi formanns KKÍ í sautján ár þegar hann lét af því starfi í mars síðastliðnum eftir að samþykkt var á þingi KKÍ að sami aðili gæti ekki gegnt starfi framkvæmdastjóra og formanns sambandsins. Guðbjörg Norðfjörð tók við formennsku en Hannes er áfram framkvæmdastjóri.

Í gær var ársþing FIBA Europe haldið í Munchen í Þýskalandi og bauð Hannes sig fram í stjórn. Hann var einn sjö nýrra sem hlaut kosningu í stjórn sem alls er skipuð tuttugu og þremur einstaklingum.

Á Facebooksíðu sinni segir Guðbjörg Norðfjörð, sem var viðstödd ársþingið, að Hannes hafi hlotið góða kosningu.

„Virkilega góðar fréttir fyrir okkar litla land og segir okkur að við erum að gera góða hluti. Það sem stendur upp úr fyrir utan góða kosningu Hannesar er að í dag vann lýðræðið þar sem kosningabaráttan var drengileg og gildi samvinnu var í hávegum höfð.“

Spánverjinn Jorge Garbajosa var kjörinn formaður FIBA á þinginu í Munchen en hann er fyrrum leikmaður og lék meðal annars með Toronto Raptors í NBA-deildinni sem og Real Madrid á Spáni. Garbajosa tekur við formennskunni af Tyrkjanum Turgay Demirel sem gegnt hafði embættinu allt frá árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×