Erlent

Heit­a því að hlíf­a eng­um eft­ir að öldr­uð kona með heil­a­bil­un var beitt raf­byss­u

Samúel Karl Ólason skrifar
Clare Nowland er nokkuð þekkt í heimabæ sínum. Áður en hún þjáðist elliglöpum hélt hún upp á áttatíu ára afmæli sitt með því að fara í fallhlífarstökk og var fjallað um það í fjölmiðlum í Ástralíu.
Clare Nowland er nokkuð þekkt í heimabæ sínum. Áður en hún þjáðist elliglöpum hélt hún upp á áttatíu ára afmæli sitt með því að fara í fallhlífarstökk og var fjallað um það í fjölmiðlum í Ástralíu. AP/ABC

Forsvarsmenn lögreglunnar í Nýja Suður-Wales í Ástralíu, heita því að velta öllum steinum og hlífa engum í rannsókn á atviki þar sem lögregluþjónn skaut 95 ára konu með heilabilun með rafbyssu. Rannsóknarmenn í morðadeild lögreglunnar eru með málið til rannsóknar.

Atvikið átti sér stað í bænum Cooma þar sem lögregluþjónar voru kallaðir til hjúkrunarheimilis á dögunum. Þar var Clare Nowland með hníf í hendi og var hún sögð óróleg.

Tveir lögregluþjónar mættu á vettvang en þá hélt Nowland á steikarhníf. Lögreglustjórinn Peter Cotter segir að Nowland hafi neitað að leggja hnífinn frá sér og hún hafi verið að nálgast lögregluþjónana, hægt, á göngugrind þegar þeir skutu hana með rafbyssu.

Nowland féll í gólfið og höfuðkúpubrotnaði og blæðingu inn á heila. Henni er haldið sofandi á sjúkrahúsi en ólíklegt er talið að hún lifi af.

Annar lögregluþjónninn hefur starfað hjá lögreglunni í tólf ár. Hvorugur þeirra hefur verið settur í leyfi.

Sjá einnig: Mikil reiði eftir að 95 kona í göngugrind var skotin með rafbyssu

Ástralska ríkisútvarpið hefur eftir Cotter að óháð rannsókn muni fara fram og farið verði í saumana á málinu. Enginn, og þar með taldir lögregluþjónar, væri hafinn yfir lögin.

Inngangurinn að Yallambee Lodge hjúkrunarheimilinu í Cooma.AP/Lukas Coch

Réttara að sýna samúð

Nicole Lee, forseti samtaka fatlaðra í Ástralíu, segir atvikið vera sláandi. Réttast hefði verið að tala við hana, koma fram við hana af samúð og gefa henni tíma.

„Hún er annað hvort merkilega lipur, hröð og ógnandi 95 ára gömul kona, eða þessir lögregluþjónar sýndu mjög mikinn dómgreindarskort,“ hefur ABC eftir Lee.

Gagnrýni hefur einnig beinst að starfsmönnum hjúkrunarheimilisins og það að lögreglan hafi yfir höfuð verið kölluð til. Frá yfirvöldum í Nýja Suður-Wales heyrist að atvikið sé ekki í takt við rétt vinnubrögð. Enginn vilji að móðir þeirra eða amma sé skotin með rafbyssu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×