Erlent

Jarðar­för Elísa­betar Bret­lands­drottningar kostaði 28 milljarða

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Gríðarlega margir tóku þátt í útförinni sjálfri.
Gríðarlega margir tóku þátt í útförinni sjálfri. Getty/Hussein

Jarðarför Elísabetar II Bretlandsdrottningar kostaði 162 milljónir punda eða um 28,3 milljarða íslenskra króna. Talið er að mestur peningur hafi farið í löggæslu.

Útförin fór fram 19. september í fyrra og stóð athöfnin sjálf yfir í nokkra klukkutíma. Tvö þúsund manns voru viðstaddir, þar á meðal kóngafólk og þjóðarleiðtogar frá hinum ýmsu löndum. Drottningin var svo jarðsungin við fámenna athöfn að viðstöddum nánustu fjölskyldumeðlimum.

Sjá einnig: Elísa­bet Bret­lands­drottning borin til grafar

Áður en jarðarförin fór fram lá kista drottningarinnar í Westminster Hall í miðborg Lundúna. Þar gafst almenningi kostur á að votta henni virðingu sína fyrir jarðarförina en biðröðin var alla jafna mjög löng og margir biðu í fleiri klukkutíma. Allt þetta hefur kostað sitt: útförin, aðdragandinn og athafnirnar.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að „Home Office,“ sem er ígildi ráðuneytis Breta sem sér meðal annars um löggæslu og innflytjendamál, hafi eytt um 74 milljónum punda. Þar á eftir kemur menningar-, fjölmiðla- og íþróttaráðuneyti með 57 milljónir króna.

Fjármálaráðuneytið breska segir að markmiðið hafi verið að allt gengi vel, bæði til að sýna drottningunni tilhlýðilega virðingu og til að passa upp á öryggi almennra borgara. Þá fór nokkur peningur í að endurgreiða skosku ríkisstjórninni, eða tæpar 19 milljónir punda.


Tengdar fréttir

Drottningin lést úr elli

Elísabet II. Bretlandsdrottning lést úr elli, 96 ára að aldri. Dánarvottorð hennar var gefið út í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×