Körfubolti

Jón Axel og félagar enn á lífi í úrslitakeppninni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í Laugardalshöll fyrir leik við Spán.
Jón Axel Guðmundsson í Laugardalshöll fyrir leik við Spán. vísir/Sigurjón

Lið Pesaro vann góðan sigur á Milan í úrslitakeppni ítalska körfuboltans í kvöld. Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Milan en þrjá leiki þarf til að komast áfram í undanúrslit.

Jón Axel Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Pesari frekar en í fyrri tveimur leikjum liðanna í einvíginu. Milan kom með 2-0 forystu í einvíginu inn í leik kvöldsins og gat því tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri. Pesaro lenti í áttunda sæti deildakeppninnar en Milan endaði í efsta sæti.

Leikurinn í kvöld var jafn og leiddi Milan með sex stigum í hálfleik, staðan þá 42-36 gestunum í vil. Í upphafi síðari hálfleiks hélst munurinn svipaður. Pesaro tókst að jafna metin í 53-53 um miðjan þriðja leikhluta en Milan náði forystunni á ný og leiddi 66-61 áður en fjórði leikhluti hófst.

Lið Pesaro kom síðan afar sterkt til leiks í lokafjórðungnum. Þeir skoruðu fyrstu sjö stigin og komust í forystu og náðu átta stiga forskoti í stöðunni 82-74 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Þann mun náði Milan ekki að brúa, Pesaro sigldi sigrinum í höfn og vann 88-83 sigur að lokum.

Staðan í einvíginu er því 2-1 en liðin mætast næst á laugardag á heimavelli Pesaro. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×