Framlag okkar Íslending til Eurovision í ár var lagið Power í flutningi Diljár. Þrátt fyrir að veðbankar hafi ekki spáð laginu brautargengi til úrslitanna voru margir orðnir vongóðir fyrir seinna undankvöldið á fimmtudaginn síðasta.
Þó fór sem fór og Diljá fékk ekki að flytja lagið á sjálfri úrslitakeppninni, sem fram fór í Liverpool í gærkvöldi.
Nú hafa nákvæm úrslit símakosningarinnar á fimmtudagskvöld verið kunngjörð. Í frétt á vefnum Eurovisionworld má sjá að Diljá var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Evrópa kaus hana í ellefta sæti, einu sæti á eftir Eistum sem komust áfram. Þó vantaði nokkuð upp á stigafjöldann, Ísland hlaut 44 stig en Eistland 74.
Efstir í undanriðlinum voru Ástralir, sem gæti ært óstöðugan íslenskan Eurovisionaðdáanda, enda eru þeir ekki Evrópubúar og eru nýbyrjaðir að taka þátt í keppninni. Þeir hlutu 149 stig í símakosningunni.
Næstir á eftir þeim voru Austurríkismenn menn með 137 stig og bronsframlagið var Solo í flutningi stúlknanna frá Póllandi með 124.
Frændur okkar frá Danmörku riðu ekki feitum hesti frá símakosningunni og hlutu aðeins sex stig, sem skilaði þeim þó fjórtánda sæti. San Marino og Rúmenía hluti bæði ekki eitt einasta stig.