Fótbolti

Messi á leið til Sádí-Arabíu þótt konan vilji ekki fara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonela Roccuzzo og Lionel Messi eiga þrjú börn saman.
Antonela Roccuzzo og Lionel Messi eiga þrjú börn saman. getty/Antoine Flament

Félagaskipti Lionels Messi til Al-Hilal í Sádi-Arabíu frá Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain eru frágengin. Þetta herma heimildir AFP fréttastofunnar.

Ef af félagaskiptunum verður munu Messi og Cristiano Ronaldo endurnýja kynnin í sádi-arabísku úrvalsdeildinni. Ronaldo hefur leikið með Al-Nassr frá áramótum. 

Eiginkona Messis, Antonela, ku ekki vera spennt fyrir því að flytja til Sádi-Arabíu en það virðist ekki koma í veg fyrir að argentínski snillingurinn fari til Al-Hilal. Talið er að samningur Messis við Al-Hilal verði 522 milljóna punda virði og til tveggja ára, með möguleika á árs framlengingu.

Samningur Messis við PSG rennur út eftir tímabilið og hann hefur meðal annars verið orðaður við endurkomu til Barcelona. Katalóníufélagið á þó líklegast ekki efni á honum.

PSG setti Messi í tveggja vikna agabann á dögunum fyrir að ferðast í leyfisleysi til Sádí-Arabíu. Hann er sendiherra ferðamála fyrir Visit Saudi-Arabia.

Messi baðst seinna afsökunar á ferðalaginu til Sádí-Arabíu. „Ég var búinn að skipu­leggja þessa ferð og gat ekki hætt við hana. Fyrir þetta hafði ég þurft að fresta henni einu sinni. Ég bið liðs­fé­laga mína af­sökunar og bíð nú eftir því að sjá hvað fé­lagið vill gera við mig,“ sagði Messi í afsökunarbeiðni sinni. 

Forráðamenn PSG tóku hana góða og gilda og afléttu banninu. Messi getur því spilað næsta leik PSG sem er gegn Ajaccio á laugardaginn.

Messi gekk í raðir PSG frá Barcelona fyrir tveimur árum. Hann varð franskur meistari með liðinu á síðasta tímabili og líklegt er að það endurtaki leikinn í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×