Körfubolti

Gerði það sama og Kobe nákvæmlega 26 árum síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lonnie Walker IV skorar körfu í nótt án þess að Klay Thompson komi vörnum við.
Lonnie Walker IV skorar körfu í nótt án þess að Klay Thompson komi vörnum við. AP/Marcio Jose Sanchez

Lonnie Walker fjórði komst í sviðsljósið í nótt eftir frábæra frammistöðu sína á úrslitastundu þegar Los Angeles Lakers komst í 3-1 á móti ríkjandi meisturum í Golden State Warriors í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt.

Lakers átti frábæra endurkomu í lokaleikhlutanum sem liðið vann með tíu stigum, 27-17.

Þar fór Walker á kostum en hann skoraði öll fimmtán stig sín í leiknum í fjórða leikhlutanum eða næstum því jafn mikið og allt Warriors liðið gerði til samans í lokaleikhlutanum.

Þegar menn fóru að grafa í sögubókunum þá kom í ljós að Walker var þarna fyrsti leikmaður Lakers í 26 ár til að skora fimmtán stig í lokaleikhlutanum í leik í úrslitakeppni eftir að hafa komið inn af bekknum.

Því hafði enginn leikmaður Lakers náð síðan að Kobe Bryant skoraði sautján stig í fjórða leikhluta árið 1997.

Í raun voru liðin nákvæmlega 26 ár frá þeirri innkomu Kobe sem náði því 8. maí 1997 en Walker gerði að 8. maí 2023.

Kobe Bryant gerði þetta á móti Utah Jazz í undanúrslitum Vesturdeildarinnar 1997 en hann skoraði þá þrettán af nítján stigum sínum í leiknum af vítalínunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×