Fótbolti

FC Kaupmannahöfn tapaði og missti topp­sætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði FCK.
Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði FCK. Vísir/Getty

Íslendingalið FC Kaupmannahöfn tapaði 3-2 fyrir FC Nordsjælland í eina leik dagsinsí dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Með sigrinum fór Nordsjælland upp á topp deildarinnar á kostnað FCK.

Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði FCK og nældi sér í gult spjald snemma leiks. Ísak Bergmann Haraldsson leysti hann af hólmi þegar sjö mínútur voru til loka venjulegs leiktíma.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leik dagsins og kom Martin Frese þeim yfir á 28. mínútu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Daniel Svensson tvöfaldaði forystuna eftir tæpa klukkustund áður en gestirnir minnkuðu muninn á 71. mínútu þökk sé sjálfsmarki Kian Hansen.

Ernest Nuamah gulltryggði sigur Nordsjælland undir lok venjulegs leiktíma. Mikið átti þó eftir að gerast áður en flautað var til leiksloka. Kevin Diks nældi sér í sitt annað gula spjald í liði FCK og þar með rautt. Gestirnir náðu þó að minnka muninn þökk sé marki Diogo Gonçalves úr vítaspyrnu.

Nær komst FCK ekki og lokatölur 3-2 Nordsjælland í vil. FCK missir þar með frá sér toppsætið en Nordsjælland situr þar nú með 50 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. FCK er með 49 stig í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×