Vinir Kópavogs ályktuðu um málið á aðalfundi félagsins sem fór fram í lok apríl síðastliðnum og segir Helga Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, mikinn einhug í félagsfólki. Þeim finnist málið vera skammarblett fyrir næst stærsta sveitarfélag landsins.
„Samningurinn var tilbúinn af hálfu ríkisins í ágúst í fyrra og við höfum verið að ýta á um það að við tækjum þátt í þessu sameiginlega verkefni sem íslenska ríkið bauð fram til að taka á móti fólki sem er að flýja ömurlegar aðstæður í sínu heimalandi og þarf útbreiddan faðm og aðstoð,“ segir Helga og bendir á að frá því í ágúst hafi öll sveitarfélög í kringum Kópavog samþykkt móttöku sem og stærstu sveitarfélög landsins.
„Þannig það er okkur óskiljanlegt að meirihlutanum í Kópavogi hafi ekki enn tekist að gera samninga um að liðsinna flóttafólki. Það er mikill smánarblettur fyrir sveitarfélagið,“ segir Helga. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hafi ekki gefið neinar skýringar sem Vinir Kópavogs telji fullnægjandi. „Það er talað um húsnæðisskort og aðstöðuskort en það er ekkert, held ég, sem er öðruvísi hvað það snertir í Kópavogi heldur en í öðrum sveitarfélögum sem hafa tekið þátt í þessu samfélagslega verkefni, að liðsinna fólki í neyð.“
Helga segir málið ítrekað hafa verið rætt á vettvangi bæjarráðs og í bæjarstjórn en að engar haldbærar skýringar hafi verið gefnar. „Við upplifum þetta bara hreinlega sem skammarblett að taka ekki þátt í verkefni af þessum toga. Það er eins og við höfum ekki þá samkennd með fólki í neyð sem er mikilvægt að hafa.“