Körfubolti

Hard­en magnaður þegar Phila­delphia jafnaði metin eftir fram­lengdan leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
James Harden fagnar hér með stuðningsmönnum eftir sigurinn í kvöld.
James Harden fagnar hér með stuðningsmönnum eftir sigurinn í kvöld. Vísir/Getty

Stórkostleg frammistaða James Harden leiddi Philadelphia 76´ers til sigurs gegn Boston Celtics í fjórða leik liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í kvöld. Staðan í einvíginu er 2-2.

Boston leiddi einvígið gegn Philadelphia 2-1 fyrir leikinn í kvöld og James Harden þurfti að sanna sig upp á nýtt eftir frábæra frammistöðu í fyrsta leiknum sem 76´ers vann í Boston. Í síðustu tveimur leikjum einvígisins hafði hann aðeins hitt úr fimm af tuttugu og átta skotum utan af velli og aðeins skorað tvær þriggja stiga körfur.

Harden tók áskoruninni heldur betur í kvöld. Hann átti gjörsamlega frábæran leik í 116-115 sigri Philadelphia 76´ers en leikurinn fór alla leið í framlengingu eftir að staðan var jöfn 107-107 að loknu venjulegum leiktíma. Harden jafnaði metin þegar rúmar fimmtán sekúndur voru eftir með góðri körfu þar sem hann fór illa með vörn Boston Celtics.

Framlengingin var æsispennandi. Joel Embiid skoraði tvö stiga af vítalínunni þegar 56 sekúndur voru eftir og kom þá Philadelphia í 113-112 forystu. Jayson Tatum skoraði hins vegar þriggja stiga körfu í næstu sókn Boston og kom gestunum 115-113 yfir þegar rúmar 26 sekúndur voru eftir.

James Harden var þó ekki hættur. Þegar 18 sekúndur voru eftir skoraði hann þriggja stiga körfu úr horninu eftir sendingu Embiid og kom Philadelphia aftur einu stigi yfir 116-115.

Boston fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn undir lokin. Marcus Smart náði að koma boltanum ofan í körfuna en því miður fyrir hann var tíminn liðinn áður en hann sleppti boltanum. Dómararnir fóru skjáinn til að fá það staðfest og áhorfendur í Wells Fargo Center trylltust af fögnuðu þegar niðurstaðan lá fyrir.

Lokatölur 116-115 fyrir Philadelphia 76´ers sem jafnar þar með metin í einvíginu.

James Harden átti magnaðan leik fyrir Philadelphia í kvöld. Hann skoraði 42 stig, tók átta fráköst, gaf níu stoðsendingar og stal fjórum boltum. Stórkostleg frammistaða. Joel Embiid kom næstur með 34 stig og þrettán fráköst en þeir Jaylen Bowen, Jayson Tatum og Marcus Smart skoruðu allir yfir tuttugu stig fyrir Boston Celtics.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×