Beðið var með mikilli eftirvæntingu eftir leik ÍA og Grindavíkur í kvöld en liðunum var í flestum, ef ekki öllum, spám spáð upp í Bestu deildina að yfirstandandi tímabili loknu.
Svo fór í kvöld að Grindvíkingar mættu mun ákveðnari til leiks á Norðurálsvöllinn.
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði fyrsta mark Lengjudeildarinnar þetta árið með marki fyrir Grindavík á 4. mínútu.
Mark beint úr aukaspyrnu frá Guðjóni Pétri Lýðssyni á 27. mínútu tvöfaldaði síðan forystu Grindavíkur.
Það reyndist lokamark leiksins og halda Grindvíkingar, sem voru studdir áfram af háværum stuðningsmönnum sínum, sáttir heim.
Þá unnu Leiknismenn, sem féllu úr Bestu deildinni á síðasta tímabili, góðan 3-1 sigur á Þrótti Reykjavík og sömuleiðis gerðu leikmenn Aftureldingar góða ferð á Selfoss og unnu þar sömuleiðis 3-1 sigur.
Nýliðar Ægis, sem fengu óvænt sæti í Lengjudeildinni eftir brotthvarf Kórdrengja voru grátlega nálægt því að tryggja sér stig gegn Fjölni á heimavelli en mark í uppbótartíma venjulegs leiktíma sá til þess að strákarnir úr Grafarvogi fengu stigin þrjú.
Þá gerðu Grótta og Njarðvík 1-1 jafntefli á Seltjarnarnesi. Tómas Johannessen kom Gróttu yfir á 33. mínútu en þegar komið var fram á síðasta stundarfjórðungi leiksins náði Marc Mcausland, fyrirliði Njarðvíkur að jafna metin fyrir þá grænklæddu.
Einn leikur á eftir að fara fram í 1. umferð deildarinnar. Á morgun taka Þórsarar á móti Vestramönnum í Boganum á Akureyri.