Körfubolti

Fær í fyrsta skipti sinn eigin leik­manna­skáp á fimm­tán ára ferli í WNBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Candace Parker ætlar sér að verða WNBA-meistari með þriðja félaginu en hún hefur unnið titla bæði í Los Angeles og Chicago.
Candace Parker ætlar sér að verða WNBA-meistari með þriðja félaginu en hún hefur unnið titla bæði í Los Angeles og Chicago. Getty/Michael Reaves

Goðsögn í kvennakörfuboltanum er að upplifa hluti í dag sem hún hefur aldrei fengið að upplifa áður á sínum langa og glæsilega ferli.

Las Vegas Aces félagið er nefnilega að sýna körfuboltakonum sínum hvernig það er að vera í fyrsta sæti á öllum sviðum, ekki bara inn á vellinum heldur einnig utan hans.

Aces liðið varð WNBA-meistari í fyrsta sinn á síðasta tímabili og ætlar sér að verða stórveldi í kvennaboltanum. Lykill að því er að búa konunum upp á sömu umgjörð og karlaliðin í NBA-deildinni.

Candace Parker er ein farsælasta körfuboltakona heims undanfarin áratug og hefur orðið WNBA-meistari með bæði Los Angeles Sparks og Chicago Sky. Hún ákvað að skipta um lið í sumar og ganga til liðs við Las Vegas Aces.

Ein að ástæðunum er án efa glæsileg umgjörð hjá Las Vegas liðinu.

Las Vegas Aces er fyrsta WNBA félagið í sögunni sem byggir sér aðstöðu fyrir kvennaliðið þar sem er boðið upp á það besta. Meðal annars hafa leikmenn glæsilegan leikmannaskáp í sínum búningsklefa.

Parker segist þannig að í fyrsta sinn á fimmtán ára ferli hafi hún sinn eigin leikmannaskáp.

„Ég hef aldrei fengið leikmannaskáp á öllum mínum ferli. Ég hef barist svo lengi fyrir því að koma WNBA-deildinni á hærri stall. Staðreyndin er sú að ég hafði aldrei verið með æfingahús þar sem ég gæti farið að skjóta á kvöldin,“ sagði Candace Parker meðal annars í hlaðvarpsþætti Draymond Green.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá nýju höllinni hjá Las Vegas Aces.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×