Fjölbreytt opnunarhóf standa einnig til boða bæði í miðbænum sem og í húsgagnaversluninni Vest í Ármúla, Norræna húsinu, Borgarbókasafninu í Grófinni og úti á Granda.
Kiosk Granda verður með tískupartý frá klukkan 16:00-20:00 og Fatamerkið Bið að heilsa niðrí Slipp frumsýnir glænýja peysu á Sjóminjasafninu, ásamt því að bjóða gestum og gangandi að taka þátt í keppni í sjómann.

Á Hólmaslóð verður meðal annars opnun á Pásu barnum hjá Lady Brewery þar sem hún hefur breytt höfuðstöðvum sínum í upplifunarbar. Einnig munu Sóley Organics og Geysir afhjúpa fyrstu vöruna úr samstarfsverkefni sínu Rætur í arfleifð okkar.
Fischersund stendur fyrir sýningunni Korter í fimm þar sem þau kynna inn nýjan ilm. Ilmurinn er innblásinn af augnabliki ringulreiðar og gleði sem á sér stað þegar þú gengur út af myrkum sveittum bar út í ferskan og bjartan sumarmorgun.

Sundbolahönnunarmerkið Swimslow býður síðan í opnunar- og innflutningspartý á Seljavegi klukkan 19:00.
Þá verður stafrænu listaverki varpað á norðurhlið Ráðhússins í Reykjavík frá klukkan 20:00-23:00 í kvöld. Hér má nálgast dagskrána í heild sinni fyrir daginn í dag.