Dósasel er verndaður vinnustaður sem rekinn er af Þroskahjálp á Suðurnesjum en þar starfa að jafnaði um 10 fatlaðir starfsmenn allan ársins hring og taka á móti dósum til endurvinnslu.
Fólk af öllum Suðurnesjum kemur með dósir og flöskur í Dósasel en um 40 þúsund slíkar umbúðir koma þangað á hverjum degi virka daga vikunnar og fá viðskiptavinir skilagjald fyrir.
Tækjakostur Dósasels er mjög fullkomin, til dæmis eru myndavélar á flokkunarlínunum.
„Myndavélin tekur 200 myndir af hverri flösku til að vita hvernig hún eigi að sortera. Hún gerir það til þess að skynja hverja flösku og vita hvert hún á að fara, það sorterast í ál, plast og gler í sinn hvorn pokann,“ segir Inga Jóna Björgvinsdóttir forstöðukona Dósasels og bætir við.
„Ég veit að við erum að kaupa fyrir rúmar 200 milljónir flöskur á ári. Þetta eru um 40 þúsund stykki á dag.“
„Ég er að flokka gler, rusl og plast og ál. Þetta er bara gaman og skemmtilegur vinnustaður, ég ætla að vinna hérna í mörg ár í viðbót,“ segir Sandra Rós Margeirsdóttir starfsmaður Dósasels.
„Það er alltaf gaman í vinnunni hérna, alltaf. Það er svo mikil gleði hérna og gaman að mæta á morgnana og skemmtilegt að hafa góða yfirmenn og horfa á fólk hérna koma með dósirnar,“ segir Ragnar Lárus Ólafsson starfsmaður Dósasels.
Þáttur um Dósasel var í kvöld á Stöð 2 í þættinum „Mig langar að vita“, sem er hægt að nálgast í heild sinni á Stöð 2+