Handbolti

„Ég er ótrúlega stolt af mínu liði“

Andri Már Eggertsson skrifar
Díana Guðjónsdóttir á hliðarlínunni í leik dagsins gegn ÍBV.
Díana Guðjónsdóttir á hliðarlínunni í leik dagsins gegn ÍBV. Vísir/Hulda Margrét

Haukar unnu eins marks sigur gegn ÍBV 25-24 í ótrúlegum leik sem fór í framlengingu. Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, var í skýjunum með ótrúlegan sigur.

„Það var geggjað að vinna þennan leik og ég er ótrúlega stolt af liðinu mínu,“ sagði Díana Guðjónsdóttir eftir ótrúlegan sigur gegn ÍBV. 

Leikurinn var mjög kaflaskiptur og Díana taldi það eðlilegt þar sem hún er með mjög ungt og efnilegt lið. 

„Það var mögulega skiljanlegt ég hef sagt það áður að við erum með mjög ungt lið og erum margar hverjar að fara í undanúrslit í fyrsta skipti og það er spenna en svona virkar þetta. Handboltinn er ekkert búinn fyrr en leikurinn er búinn.“

Haukar skoruðu eitt mark á fyrstu þrettán mínútum síðari hálfleiks en heimakonur spiluðu síðan betur það sem eftir var í venjulegum leiktíma.

„Það kom tímapunktur þar sem við fórum út úr okkar skipulagi og við þurftum að stilla það aftur. Þegar við náðum því þá kom þetta hægt og rólega.“

Díana var ánægð með hvernig Haukar spiluðu í framlengingunni sem skilaði sigri.

„Við vorum með yfirhöndina í framlengingunni fannst mér. Það hlýtur að vera, þar sem við unnum leikinn.“

„Ég sagði við mína leikmenn að við höfum verið í þessu áður. Við lærðum fullt af leiknum gegn Fram sem fór í framlengingu og við ætluðum að spila eins í dag,“ sagði Díana Guðjónsdóttir að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×