Innlent

Sinu­bruni á höfuð­borgar­svæðinu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Slökkviliðið er byrjað að reyna að ráða niðurlögum sinubrunans.
Slökkviliðið er byrjað að reyna að ráða niðurlögum sinubrunans. Vísir/Steingrímur Dúi

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á fjórða tímanum í dag vegna sinubruna við Turnahvarf í Kópavogi.

Þegar fréttastofa náði tali af slökkviliðinu voru slökkviliðsmenn nýkomnir á vettvang og voru að meta aðstæður. Að sögn sjónarvotts er mjög mikill reykur á svæðinu.

Slökkviliðið er mætt á svæðið.Aðsend

Að sögn Jónasar Árnasonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, eru tvær slökkviliðsstöðvar að vinna í að ráða niðurlögum eldsins. Hann segir að um stórt og mikið svæði sé að ræða. Eldurinn sé kominn í einhver tré og þá fari hann að verða erfiðari viðureignar. Þá sé ekki hætta á að eldurinn dreifist í íbúðahús að svo stöddu.

„Það er bara rétt fyrir hálf fjögur sem við fáum tilkynningu um smá sinuend fyrir neðan Tónahvarf í Kópavoginum sem breiddist svolítið hratt út,“ segir Jónas í samtali við fréttastofu.

Jónas segir að eldurinn hafi fyrst verið í lúpínu en svo hafi hann gengið hratt niður og náð í gróður neðst í brekkunni. „Við erum búnir að bæta við öðrum og þriðja bíl þannig það eru þrír bílar þarna á staðnum og þeir eru svona við það að ná tökunum á þessu.“

Klippa: Sinubruni á höfuðborgarsvæðinu

Að sögn Jónasar eru engin hús í nágrenninu sem eru í hættu á að verða eldinum að bráð. „Það er langt þannig séð í næstu hús,“ segir hann.

Ákveðið var að loka Breiðholtsbrautinni þar sem mikill reykur var að ganga fyrir umferðina. Jónas segir þó að þeir fari að opna hana aftur.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×