Logi greindi frá því á dögunum að yfirstandandi tímabil yrði hans síðasta og eftir að Njarðvík féll úr leik í undanúrslitum Subway-deildar karla í körfubolta er ljóst að Logi hefur lagt skóna á hilluna frægu eftir magnaðan feril.
Logi, sem verður 42 ára gamall á árinu, er uppalinn hjá Njarðvík þar sem hann lék stærstan hluta ferilsins. Hann hóf meistaraflokssferilinn árið 1997 og eru árin því orðin 26 talsins.
Hann lék þó ekki aðeins með Njarðvík á ferlinum, því Logi á einnig langan atvinnumannaferil að baki. Árið 2002 hélt hann til Þýskalands þar sem hann lék með liðum á borð við Ulm, Giessen 46ers og BBC Bayreuth. Hann lék einnig með Torpan Pojat í Finnlandi, Gijon á Spáni, Saint-Étienne og Angers BC 49 í Frakklandi og Solna Vikings í Svíþjóð.
Logi snéri þó aftur til uppeldisfélagsins árið 2013 og hefur leikið með liðinu síðan. Hann hefur verið valinn leikmaður ársins á Íslandi, verið valinn í lið ársins í þrígang, orðið Íslandsmeistari í þrígang og bikarmeistari í þrígang.
Tæknifólk Stöðvar 2 setti saman myndabnd í tilefni af því að einn af okkar allra reyndustu körfuboltamönnum væri að hverfa af stóra sviðinu, en myndbandið má sjá hér fyrir neðan.