Landsbankinn krafðist þess að viðurkennd yrði með dómi skaðabótaskylda vegna söluhagnaðar sem bankinn hefði notið ef hann hefði selt 31,2 prósenta eignarhlut sinn í Teya Iceland, sem þá hét Borgun, að tekni tilliti til upplýsinga sem kaupendur bjuggu yfir en létu bankanum ekki í té.
Eignarhluturinn var seldur á 2,2 milljarða króna árið 2014 en síðar kom í ljós að hluturinn var mun verðmætari en viðskiptin gáfu til kynna, ekki síst vegna eignarhlutar fyrirtækisins í Visa Europe, sem var tekið yfir af Visa Inc. síðla árs 2015. Í ársreikningi Borgunar fyrir árið 2015 var eignarhluturinn í Visa Europe metinn á 5,4 milljarða króna en Landsbankinn bar fyrir sig að stjórnendur Borgunar hefðu ekki upplýst fulltrúa bankans um hugsanlegan hagnað vegna Visa Europe.
„Er það mat dómsins að slík vanræksla af hálfu stefnanda, sem er fjármálastofnun sem býr yfir mikill reynslu og þekkingu á sviði kortaviðskipta, […] hljóti að leiða til þess að stefnandi geti ekki réttilega haft uppi kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu […] þar sem höfuðorsök þess að svo fór sem fór virðist vera vanræksla stefnanda á því að gæta hagsmuna sinna,“ segir í dómi héraðsdóms.
Landsbankanum er gert að greiða stefndu, hverjum fyrir sig, 10 milljónir króna í málskostnað og 13 milljónir aukalega til Teya Iceland fyrir útlagðan kostnað.